Vesturland
  • 0016

Malarrifsviti

Malarrif

Byggingarár:1946.[1]

Hönnuður: Ágúst Pálsson arkitekt.[2]

Breytingar: Vitinn var húðaður utan með ljósu kvarsi í upphafi en árið 1991 var hann kústaður með hvítu sementi.[3]

Friðaður af menntamálaráðherra 1. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin tekur til ytra og innra borðs vitans og ljóshúss, þar með eru talin linsa, linsuborð og lampi, hurðir, gluggar, stigar og handrið. Friðunin nær einnig til umhverfis vitans í 100 m radíus umhverfis hann.[4]

 

Malarrifsviti er steinsteyptur, sívalur turn, 4,20 m í þvermál og 20,2 m hár, og stendur á 0,8 m háum steinsteyptum sökkli. Á vitanum er 3,5 m hátt ljóshús. Fjórir stoðveggir eru upp með turninum. Þeir ganga lengst út frá jarðhæð turnsins, styttast og hallast að honum þegar ofar dregur, en stallur er á stoðveggjunum við fyrstu hæðaskil og efst uppi undir þakskeggi. Efst á turninum eru svalir og steinsteypt handrið umhverfis. Í handriðinu eru veggir upp af stoðveggjum turnsins og þrjár láréttar slár á milli þeirra. Veggir eru með grófri áferð en anddyri er sléttmúrað. Milli stoðveggja er röð lóðréttra glugga og eru þeir af tveimur mismunandi gerðum; í þremur bilum eru átta hleðslugler í hverjum glugga en í bilinu gengt dyrunum eru sex mjórri hleðslugler í hverjum glugga. Útidyr eru innst í opnu skoti og ganga veggir þess fram úr turninum.

Í vitanum eru fimm steinsteypt milligólf, steinsteypt handrið við stigaop og tréstigar milli hæða. Vitinn er múrsléttaður að innan og málaður í hólf og gólf. Á efstu hæð er stigi upp að lúgu upp á svalir umhverfis ljóshúsið og annar stigi að lúgu upp í sjálft ljóshúsið. Ljóshúsið er áttstrent að grunnformi, veggir eru steinsteyptir en gluggakarmar og þak úr járni. Í ljóshúsinu er díoptríks linsa, 1000 mm í þvermál og í henni er 110 volta 1000 watta aðalpera og 24 volta 150 watta varapera sem fær orku frá rafgeymum.


[1] Siglingastofnun Íslands. Skjalasafn. Óflokkað. Viðhaldsbók. Malarrifsviti.

[2] Siglingastofnun Íslands. Teikning A305. Malarrifsviti.

[3] Siglingastofnun Íslands. Skjalasafn. Óflokkað. Viðhaldsbók. Malarrifsviti; Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi. Malarrifsviti, 246–248. Kópavogur 2002.

[4] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Malarrifsvita.