Vesturland
  • 2296

Skarðskirkja

Skarðsströnd

Byggingarár: 1915.

Hönnuður: Bogi Magnússen smiður að Skarði að talið er.

Athugasemd: Kirkjan er smíðuð upp úr timburkirkju sem fauk 1910 en hún var smíðuð 1847–1848 af viðum úr grind torfkirkju sem reist var 1807. Yfirsmiður gömlu timburkirkjunnar var Sigurður Sigurðsson forsmiður í Grundarfirði.[1] Við smíðina 1915 var gamla timburkirkjan stytt um eitt sperrubil og smíðaður á hana þakturn.

Breytingar: Í upphafi stóð kirkjan á steinhlöðnum sökkli, veggir voru pappaklæddir og í gluggum var krosspóstur og fjórar rúður og þakið var bárujárnsklætt.[2]

Veggir voru klæddir bárujárni um 1925 nema norðurhlið sem var pappaklædd allt fram til þess að kirkjan var klædd trapisustáli og sett á steinsteyptan grunn á árunum 1977–1983.[3]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Skarðskirkja er timburhús, 9,75 m að lengd og 4,86 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er lágur ferstrendur turn. Á honum er kvistsett píramítaþak sem gengur út undan sér að neðan. Þak kirkjunnar er klætt bárujárni, turnþak sléttu járni en veggir klæddir trapisustáli og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír sexrúðu gluggar með þverrimum utan á gleri og einn minni er á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir klæddar skásettum panil. 

Inn af kirkjudyrum er gangur að kór. Hvorum megin hans eru bekkir með klæddum bökum og ná sum þeirra niður í gólf. Prédikunarstóll er framan innsta bekkjar sunnan megin. Afþiljað loft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir panelborðum upp undir miðsyllu en að ofan eru þeir klæddir listuðum standþiljum sneiddum á brúnum. Kórgafl er klæddur á svipaðan hátt en með sléttum standþiljum. Efst á kórgafli undir boga hvelfingar eru raðbogar. Yfir innri hluta framkirkju og kór er borðaklædd hvelfing.


[1] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 119. Bréf 1850. Reikningur yfir byggingu Skarðskirkju á Skarðsströnd og þar að lútandi kostnað árið 1847 [-1848] ásamt fylgiskjölum.

[2] ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V 123. Bréf 1916. Afrit af vísitasíulýsingu Skarðskirkju.

[3] ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Dalaprófastsdæmi AA/9. Skarð 1925; Biskupsskjalasafn 1994 AA/4. Skarð 1926; Þorsteinn Gunnarsson. Skarðskirkja. Greinargerð 1977; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Skarðskirkja, handrit 2009.