Fornminjar

Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.

Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:

  1. búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
  2. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,
  3. tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
  4. vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
  5. virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
  6. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
  7. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
  8. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
  9. skipsflök eða hlutar þeirra.

Varðveislustig fornminja eru tvö: friðun og friðlýsing.

Fornminjar (forngripir og fornleifar), 100 ára og eldri, eru sjálfkrafa friðaðar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands. Þá eru skip og bátar smíðuð fyrir árið 1950 sjálfkrafa friðuð.

Friðlýsa má fornleifar, skip og báta sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Ráðherra ákveður friðlýsingu að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.

 Skyndifriðun

Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun fornminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, en hafa þó ekki verið friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt. Meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu. 
     Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur. 
     Ráðherra ákveður hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar áður en skyndifriðun lýkur að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.