Skil menningarverðmæta til annarra landa

Lög um skil menningarverðmæta til annarra landa

Minjastofnun Íslands annast framkvæmd laganna fyrir hönd íslenska ríkisins. Stofnunin leggur mat á verðgildi menningarminja og annast skil á menningarminjum til annarra ríkja. Við mat á verðgildi menningarminja og öðrum þáttum sem snerta minjagildi þeirra skal stofnunin hafa samráð við Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eða Þjóðskjalasafn Íslands eftir því sem við á. Ef þörf gerist skal og leitað álits sérfróðra manna er eigi starfa við stofnanir þær er hér um ræðir.

Minjastofnun Íslands tekur við kröfum um skil menningarminja frá hlutaðeigandi stjórnvöldum í öðrum ríkjum og skal hafa náið samstarf og samráð við þau stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja og um skil þeirra, svo og við fjölþjóðlegar stofnanir er láta sig þau mál varða. Þá skal stofnunin leitast við að upplýsa um vörslustaði menningarminja sem fluttar hafa verið til landsins með óheimilum hætti. Skulu lögregluyfirvöld aðstoða við þá leit ef þörf gerist.

Tollyfirvöld eiga tafarlaust að tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins.