Útflutningur menningarverðmæta

Ekki má flytja úr landi menningarminjar sem teljast til þjóðarverðmæta nema með samþykki ráðherra. Til þjóðarverðmæta teljast hvers konar munir, gripir, myndir, skjöl, handrit og bækur í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.

Aðrar innlendar eða erlendar menningaminjar má heldur ekki flytja úr landi, nema formlegt leyfi Minjastofnunar Íslands komi til.

Minjastofnun Íslands er heimilt að koma í veg fyrir flutning menningarminja úr landi, án tillits til aldurs þeirra og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðarverðmæta eða hafa að öðru leyti sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu. Stofnunin getur stöðvað flutning þeirra úr landi um stundarsakir meðan leitað er umsagna sérfróðra manna.