Fréttir


25. okt. 2017

Djúpivogur - verndarsvæði í byggð

Þann 15. október sl. staðfesti Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra, fyrsta verndarsvæði í byggð á landinu. Djúpivogur er fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að leggja fram tillögu að verndarsvæði í byggð og fá hana staðfesta. Verndarsvæðið er afmarkað svo í lýsingu með tillögunni:  „Svæðið sem um ræðir er 60-150 m breið skák meðfram strönd sjálfs Djúpavogs að austanverðu, inn fyrir botn vogsins og út fyrir gömlu verslunarhúsin að vestanverðu (Löngubúð og Faktorshús), og þaðan upp með götunni Búlandi að austanverðu og suður á hæðina Aurinn eða Kirkjuaurinn, þar sem gamla Djúpavogskirkja stendur“.

Lög um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015 voru samþykkt á Alþingi þann 2. júlí 2015. Kveða þau á um að öll sveitarfélög skuli meta hvort innan marka sveitarfélagsins sé byggð sem ástæða sé til að gera að verndarsvæði í byggð. Skal þetta gert í tengslum við skipulagsáætlunargerð sveitarfélaga eða að afloknum sveitarstjórnarkosningum á fjögurra ára fresti. Skal þá einnig fara fram endurmat á þeim verndarsvæðum sem þegar hafa verð staðfest.

Vinna að gerð tillögu um verndarsvæði í byggð stendur yfir í 22 sveitarfélögum og bíður ein slík tillaga staðfestingar ráðherra. Veittir hafa verið sérstakir styrkir úr húsafriðunarsjóði til að koma til móts við kostnað við gerð tillögu að verndarsvæði og þeirra verkþátta sem liggja til grundvallar henni. Má þar nefna fornleifaskráningu og gerð húsakönnunar, en slík gögn eru forsenda  mats á varðveislugildi svipmóts byggðarinnar.

Óskar Minjastofnun Djúpavogi innilega til hamingju með fyrsta verndarsvæði í byggð á landinu.