Fréttir


26. maí 2020

Friðlýsing elstu byggingarinnar á Bifröst

20180903_Bifrost_MG-4-Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur elsta hluta skólabygginga Samvinnuskólans á Bifröst í Borgarfirði. Friðlýsingin tekur til ytra borðs samkomuhúss frá 1950, veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu samkomuhúss, ytra borðs tengigangs milli samkomuhúss og gistiálmu, sem reist var árið 1955, og veggmyndar á tengigangi eftir Hörð Ágústsson listmálara. Samkomuhúsið var upphaflega teiknað af arkitektunum Gísla Halldórssyni, Kjartani Sigurðssyni og Sigvalda Thordarson, en Sigvaldi fékk það verkefni á Teiknistofu S.Í.S. árið 1948 að ljúka við frágang og innréttingar hússins sem þá var að hluta risið en var ekki frágengið að fullu.

20180903_Bifrost_MG-12-Samkomuálman á Bifröst er einlyft timburhús með risi og kjallara undir hluta bakálmu. Húsið er mjög vel varðveitt í upprunalegri mynd jafnt utan sem innan en þarfnast viðhalds. Asbestklæðning er á hluta útveggja og krossviður að hluta sem þörf er á að endurnýja. Samkomuhúsið á Bifröst er að mati Minjastofnunar mikilvægt og vel varðveitt dæmi um höfundarverk Sigvalda Thordarson og samstarfsmanna hans, Gísla og Kjartans, frá upphafsárum þeirra starfsferils. Ekki síst á það við innréttingar og búnað í samkomusal og setustofu, sem varðveist hefur í nær upprunalegri mynd.

20180903_Bifrost_MG-45-Árið 1955 var reist áðurnefnd viðbygging við samkomuhúsið, þrílyft álma með gistiherbergjum ásamt tengigangi eftir uppdráttum Skúla H. Norðdahl arkitekts hjá Teiknistofu S.Í.S. Heimavistarálman tekur mið af form- og útlitseinkennum samkomuhússins. Saman mynda húsin tvö fallega og samræmda heild. Bæði húsin hafa einkennt ásýnd Bifrastar frá upphafi og hafa í hugum fólks öðlast sess sem hluti staðarmyndar Norðurárdals og táknmynd þeirra skólastofnana sem þar hafa starfað. Í tengigangi milli samkomuhússins og gistiálmu er veggmynd í anda strangflatarlistar, gerð af Herði Ágústssyni listmálara árið 1957. Er hún sú eina sem varðveist hefur af þeim fimm veggmyndum sem Hörður vann í opinberum byggingum á árunum 1953­-1959.