Fréttir


3. jún. 2019

Menningarminjadagarnir - auglýst eftir viðburðum

Logo-AE-2019Minjastofnun Íslands sér um skipulagningu Menningarminjadaganna (European Heritage Days) á Íslandi, en þeir eru samevrópsk hátíð sem Evrópuráðið stendur í grunninn fyrir. Hlutverk daganna er að vekja athygli almennings á menningarminjum og því hve mikilvægar þær eru, bæði fyrir samfélagið sjálft og efnahag. Markmið með þessum dögum er að fá aðila í héraði, grasrótarsamtök, áhugamenn og eldhuga, til að standa að viðburðum og virkja samfélagið og gesti þess með sér, þ.e. ýta undir virka þátttöku í viðburðunum. Auk þessa er hugmyndin sú að bæði aðstandendur og þátttakendur viðburðanna fái tilfinningu fyrir sam-Evrópskum menningararfi okkar.  

Menningarminjadagarnir verða haldnir hér á landi helgina 30. ágúst - 1. september og er þema ársins "Listir og leikir" eða "Arts and Entertainment". Þurfa viðburðir Menningarminjadagana að falla undir þemað með einum eða öðrum hætti. 

Minjastofnun auglýsir eftir viðburðum á dagskrá Menningarminjadaganna. Viðburðirnir þurfa  að uppfylla markmið Menningarminjadaganna um að setja menningarminjar á oddinn og huga að evrópskri tengingu, en einnig verða þeir að taka mið af þema ársins "Listir og leikir".

Allir viðburðir sem valdir eru á dagskrá Menningarminjadaganna eru skráðir inn á samevrópska síðu daganna  þar sem áhugasamir geta nálgast upplýsingar um viðburði í öllum þeim löndum sem taka þátt í Menningarminjadögunum, en þau eru um fimmtíu talsins.

Þeim sem hafa áhuga á að skrá viðburði á dagskrá Menningarminjadaganna er bent á að hafa samband við Ástu Hermannsdóttur, verkefnastjóra, á tölvupóstfang asta@minjastofnun.is


Hér má finna ítarlegri upplýsingar um Menningarminjadagana 2019 og þema þeirra .

Hér má finna Facebook síðu European Heritage Days