Fréttir


1. feb. 2022

Minjastofnun Íslands flyst í nýtt ráðuneyti

110-1044_IMG

Minjastofnun Íslands er ein þeirra ríkisstofnana sem flytur um set í nýtt ráðuneyti í dag, 1. febrúar. Flytur stofnunin við þessa breytingu úr mennta- og menningarmálaráðuneyti í ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftlagsmála.

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem sinnir fjölbreyttum menningar- og umhverfistengdum verkefnum um allt land, frá hálendi Íslands og út í hafið innan landhelgi Íslands. Hlutverk Minjastofnunar Íslands er þverfaglegt. Hún hefur óumdeilanlegt menningarhlutverk, með því að taka ákvarðanir og fjalla um menningarminjar, menningarlandslag og byggingararf sem hluta af sögu þjóðarinnar. En flest verkefnanna snerta umhverfið og áhrif þess á menningarminjar enda er eitt stærsta hlutverk Minjastofnunar að standa vörð um jarðfastar menningarminjar í umhverfinu og tryggja að þeim ásamt öðrum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.

Sé horft til þeirra mála sem starfsfólk Minjastofnunar fæst við á venjulegum degi þá leika skipulagsmál og umhverfismatsmál stærsta hlutverkið. Slíkum málum hefur fjölgað um 200% frá 2013. Umsagnir vegna friðlýsinga á náttúru Íslands og mál tengd uppbyggingu innviða vegna ferðamanna hefur einnig fjölgað verulega. Það sama á við um verkefni vegna lagningar ljósleiðara og raflína í jörð, sem og skógræktar, en allar þessar framkvæmdir geta haft veruleg áhrif á minjar. Húsverndarmálum fjölgar einnig ár hvert. Vernduðum húsum fjölgar að meðaltali um rúmlega hundrað á ári, en öll hús 100 ára og eldri eru aldursfriðuð. Aldursfriðuð hús á landinu eru núna rúmlega 4000 og friðlýst hús rúmlega 500.

Ljóst er að flutningur í nýtt ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftlagsmála er eðlilegur þegar horft er til helstu verkefna stofnunarinnar, sem hér hafa verið rakin. Minjastofnun Íslands horfir björtum augum til framtíðar í nýju umhverfi í nýju ráðuneyti og verður ánægjulegt fyrir starfsfólk stofnunarinnar að vinna að góðum málum á nýjum stað á komandi árum.