Fréttir


26. mar. 2021

Náttúruvá á Reykjanesi

IMG_4461

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði. Nánar má lesa um þessa skráningarvinnu í eldri frétt á vefnum, hér: Minjar í hættu á Reykjanesskaga – skráningarferð starfsmanna Minjastofnunar

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.Isolfsskali-verminjar

Þó höfðu nokkrar minjar verið skildar eftir þar sem þær voru staðsettar á meginumbrotasvæðinu, t.a.m. meint dys Ísólfs á Ísólfsskála í Geldingadölum og Dalssel við norðvestanvert Fagradalsfjall. Ekki hafði þótt öruggt að fara inn á þessi svæði til að mæla minjarnar upp vegna jarðskjálftavirkninnar og óvissunnar um hvað verða vildi.

Laugardaginn 20. mars fékk því Oddgeir Isaksen, fornleifafræðingur hjá Minjastofnun, flugfar með þyrlu Landhelgisgæslunnar, ásamt öðrum vísindamönnum, til að kanna aðstæður í Geldingadölum og ganga úr skugga um hvort meint dys Ísólfs væri raunverulega dys. Oddgeiri tókst að kanna meginhluta dalsins, þ.e. þann hluta sem ekki var farinn undir hraun, og er niðurstaða könnunar hans sú að engar mannvistarleifar hafi með óyggjandi hætti verið að finna í dalnum. Þó er aldrei útilokað að minjar hafi leynst undir sverði eða á því svæði sem farið var undir hraun þegar hann kom á staðinn. Í það minnsta er ljóst að meint dys Ísólfs er var einungis náttúrulegur grjóthryggur og því er legstaður landnámsmannsins enn ófundinn.IMG_4419

Á næstu dögum verður fylgst vel með aðstæðum og þróun mála í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar stefna á að fara í fleiri vettvangsferðir á svæðið, m.a. til að mæla upp þær minjar á hættusvæðinu sem eftir eru og leita af sér allan grun um að fleiri minjar sé þar að finna, sem og gera borkjarnarannsóknir á mögulegum/meintum minjastöðum.

Tenglar á fréttir er tengjast málinu:

Menningarminjar glötuðust ekki

Fornleifafræðingur flýtir sér á vettvang 

Engin ummerki um dys í Geldingadal

Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Kortleggja minjar sem gætu farið undir hraun

Ljósmyndir frá vettvangsskráningu

IMG_2778IMG_8894IMG_2908IMG_6260IMG_4317IMG_6168IMG_6295IMG_6296IMG_6305IMG_6314DJI_0020DJI_0008