Fréttir


5. des. 2011

Laugavegur 30 í Reykjavík friðaður

 

Laugavegur 30Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, húsið að Laugavegi 30 í Reykjavík, 27. október 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þegar Húsafriðunarnefnd ákvað að leggja til við ráðherra að friða 11 hús við Laugaveg árið 2007 var einkum litið til þess að húsin hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, flest þeirra hafa einnig mikið listrænt gildi og mörg hver töluvert menningarsögulegt gildi. Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt. Húsið að Laugavegi 30 hefur verið talið eitt besta dæmið um sveitserstíl í Reykjavík, sem varð algengur á timburhúsum um og eftir aldamótin 1900. Umhverfislegt gildi þess er jafnframt mjög mikið vegna staðsetningar þess við aðalverslunargötu Reykjavíkur. Auk þess stendur það á áberandi stað við enda Vatnsstígs og blasir við þegar horft er upp eftir þeirri götu.

Friðun Laugavegar 30 nær til ytra byrðis hússins, sem byggt var árið 1907.

Húsið er byggt af Bjarna Jónssyni, sem var þekktur smiður í Reykjavík á sinni tíð. Sagt er að hann hafi byggt a.m.k. 140 hús, flest í Reykjavík en þekktast þeirra er vafalaust Bjarnaborg við Hverfisgötu 83, sem kennd er við hann. Í upphafi var trésmíðaverkstæði í húsinu og allar götur síðan hefur margvísleg atvinnustarfsemi farið fram í húsinu.

 

Heimildir:

Nikulás Úlfar Másson og Helga Maureen Gylfadóttir (2001). Húsakönnun. Laugavegsreitir – miðsvæði. Skýrsla Árbæjarsafns nr. 86 Reykjavík: Árbæjarsafn.

Páll Líndal (1987). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur hf.

Umsögn borgarminjavarðar frá 30. september 2011.

 

Sjá á loftmynd