Fréttir


27. feb. 2013

Málstofa og sýning í Eskifjarðarkirkju 14. mars


Í tilefni þess að út er komið nýtt bindi – hið tuttugasta – í ritröðinni Kirkjur Íslands býður Þjóðminjasafn Íslands, Minjastofnun Íslands, Biskupsstofa og Hið íslenska bókmenntafélag til málstofu og opnunar sýningar í Eskifjarðarkirkju fimmtudaginn 14. mars kl. 20.00.


Friðaðar kirkjur í Austfjarðaprófastsdæmi.

1.  Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og fyrrum alþingismaður og ráðherra:

      Kirkjustaðir á Austfjörðum.

2.   Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og ritstjóri: 

      Ellefu friðaðar kirkjur í Austfjarðaprófastsdæmi.

3.  Lilja Árnadóttir fagstjóri munasafns Þjóðminjasafns: 

      Nokkrir gripir, fornir og nýir, í friðuðum kirkjum á Austfjörðum.


Að erindum loknum mun séra Davíð Baldursson prófastur opna sýningu um kirkjur, gripi og minningarmörk sem byggir á ritverkinu.

Fundarstjóri er Kristín Huld Sigurðardóttir forstöðumaður Minjastofnunar Íslands.

Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Kirkjur Íslands eru vandaðar og glæsilegar bækur sem opna sýn inn í mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu. Til útgáfunnar var stofnað í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Áætlað er að bókaflokkurinn verði 28 bindi og útgáfunni ljúki 2016.

Að útgáfunni standa Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd og Biskupsstofa. Meðútgefandi og dreifingaraðili er Hið íslenska bókmenntafélag.