Fréttir


12. apr. 2013

Styrkir úr Fornminjasjóði 2013 auglýstir til umsóknar


Frá og með 1. janúar 2013 tóku gildi ný lög um menningarminjar nr. 80/2012. Með gildistöku þessara laga voru Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd ríkisins sameinaðar í nýja stofnun, Minjastofnun Íslands.

 

Minjastofnun Íslands úthlutar styrkjum úr fornminjasjóði. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum, sbr. reglur Nr. 321/2013.

 

Úthlutað er styrkjum til eftirfarandi verkefna samkvæmt vinnureglum fornminjasjóðs:

·         Fornleifarannsókna (fornleifauppgraftar og fornleifaskráningar)

·         Miðlunar upplýsinga um fornminjar

·         Varðveislu og viðhalds fornminja, þ.e. fornleifum og forngripum.

·         Rannsókna á forngripum.

 

Sjóðnum er jafnframt heimilt að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja.

Umsóknir eru metnar með tilliti til vísindalegs- og menningarsögulegs gildis og þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið í minjavernd, ásamt gildi þeirra fyrir varðveislu þjóðararfleifðarinnar.

Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar, m.a. úthlutunarreglur, má nálgast á heimasíðu Minjastofnunar Íslands, www.minjastofnun.is eða í síma 570 1300.

Umsóknarfrestur er til 26. apríl 2013. Ekki er veitt viðtöku umsóknum sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur.

 Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með að þau verkefni sem hún styrkir séu unnin í samræmi við lög nr. 80/2012 og reglur stofnunarinnar og í samræmi við innsend gögn.