Fréttir


16. jún. 2014

Kirkjur Íslands - málstofa og sýning

Í tilefni þess að út er komið nýtt bindi – hið tuttugasta og þriðja – í ritröðinni Kirkjur Íslands býður Minjastofnun Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Biskupsstofa og Hið íslenska bókmenntafélag til málstofu og opnunar sýningar í Hótel Eddu Skógum föstudaginn 20. júní kl. 16.00. Hótel Edda Skógum er rekin í hinum rómaða héraðsskóla sem teiknaður var af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins.

Friðaðar kirkjur í Skaftafellsprófastsdæmi.

Dagskrá:

1.      Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og ritstjóri: Kirkjur Íslands.

2.      Þórður Tómasson safnvörður: Guðshús í Mýrdal.

3.      Guðmundur L. Hafsteinsson arkitekt og safnvörður húsasafns Þjóðminjasafns: Friðaðar kirkjur í Skaftafellsprófastsdæmi.

4.      Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafns: Nokkrir gripir, fornir og nýir, í kirkjum í Skaftafellsprófastsdæmi.

Að erindum loknum mun séra Halldóra J. Þorvarðardóttir prófastur opna sýningu um kirkjur, gripi og minningarmörk sem byggir á ritverkinu.

Fundarstjóri er Sverrir Magnússon forstöðumaður Byggðasafnsins í Skógum.

Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Kirkjur Íslands eru vandaðar og glæsilegar bækur sem opna sýn inn í mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu. Til útgáfunnar var stofnað í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Áætlað er að bókaflokkurinn verði 28 bindi og útgáfunni ljúki 2016.

Að útgáfunni standa Minjastofnun Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Biskupsstofa. Meðútgefandi og dreifingaraðili er Hið íslenska bókmenntafélag.

Verið velkomin til málstofu og opnunar sýningar föstudaginn 20. júní klukkan 16:00 að Hótel Eddu Skógum.