Fréttir


18. maí 2015

Endurmenntunar- og fræðsluferð Minjastofnunar

Minjastofnun Íslands lokaði dagana 7. og 8. maí vegna endurmenntunar- og fræðsluferðar starfsfólks. Um óvissuferð var að ræða og ríkti mikil spenna um hvert ferðinni væri heitið. Fimmtudagurinn hófst á fyrirlestri Magnúsar Orra Schram, ráðgjafa hjá Capacent, um fundarstjórnun og fundarmenningu. Lærði starfsfólkið þar mörg góð ráð og reglur varðandi fundastjórnun, fundahald og fundasetu. Að því loknu var haldið upp í rútu og keyrt út í óvissuna. Komið var við á Erpsstöðum í Dölum þar sem kynning á búinu fór fram ásamt osta-, ís- og konfektsmakki. Eftir að hafa lært hvernig mjaltaróbóti virkar og smakkað alvöru rjómaís var haldið á vit óvissunnar á ný og keyrt í norðurátt. Farin var hringferð um Fellsströnd og Skarðsströnd undir leiðsögn Sigurðar Þórólfssonar, bónda á Innri-Fagradal á Skarðsströnd og minjaráðsfulltrúa í minjaráði Vesturlands. Þökkum við honum kærlega fyrir skemmtilega og fróðlega ferð. Breiðafjörðurinn skartaði sínu fegursta og gekk hópurinn upp á Klofning til þess að njóta útsýnisins í björtu en köldu veðri. Að því loknu var haldið heim að Skarði þar sem húsfreyjan Stella tók á móti okkur. Þar voru kirkjudyrnar opnaðar og dágóðum tíma eytt í að skoða innviði og altaristöflu kirkjunnar. Eftir heimsóknina að Skarði var ferðinni heitið í Skarðsstöð þar sem gamla verslunarhúsið var skoðað og síðan stoppað við Staðarhólskirkju þar sem Sigurður fræddi okkur um skáld sveitarinnar og ýmsa aðra áhugaverða þætti í sögu hennar. Að lokinni stífri dagskrá var haldið á náttstað - huggulegt veiðihús í Laxárdal.

Í bítið á föstudagsmorgninum var haldið af stað vestur eftir Snæfellsnesi. Leiðin lá til Hellisands þar sem Guðbjörg Gunnarsdóttir, þjóðgarðsvörður þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, var sótt. Fór hún með okkur um þjóðgarðinn og leiðsagði um starfsemi þjóðgarðsins og áhugaverða sögu-, náttúru- og menningarminjastaði á svæðinu. Tvö stopp voru gerð á leiðinni í gegnum þjóðgarðinn, á Gufuskálum og á Malarrifi, áður en endað var í gestastofunni á Hellnum. Gengið var um minjasvæðið á Gufuskálum og er ástandið þar vægast sagt slæmt eftir óveður vetrarins.

Vill starfsfólk stofnunarinnar þakka öllum þeim sem tóku á móti okkur í ferðinni, leiðsögðu og aðstoðuðu, kærlega fyrir. Ferðin var skemmtileg og einkar fróðleg.