Fréttir


26. ágú. 2015

Tvö ný bindi um friðaðar kirkjur eru komin út

Friðaðar kirkjur í Múlaprófastsdæmi

Út eru komin 24. og 25. bindi í ritröðinni Kirkjur Íslands. Að útgáfunni standa Minjastofnun Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Biskupsstofa. Meðútgefandi og dreifingaraðili er Hið íslenska bókmenntafélag.

Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er á þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum. Kirkjur Íslands eru vandaðar og glæsilegar bækur sem opna sýn inn í mikilvægan þátt í íslenskri menningarsögu. Til útgáfunnar var stofnað í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Áætlað er að bókaflokkurinn verði 28 bindi og útgáfunni ljúki 2016.

Bækurnar eru prýddar fjölda ljósmynda, sem Ívar Brynjólfsson ljósmyndari Þjóðminjasafns hefur tekið, og teikningum af kirkjunum, ýmist frumteikningum eða mælingarteikningum. 

Í 24. bindi er sagt frá sjö kirkjum í Múlaprófastsdæmi, sem nú er hluti af nýju Austurlandsprófastsdæmi: Áskirkju í Fellum, Eiríksstaðakirkju, Hofskirkju í Vopnafirði. Hofteigskirkju, Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu, Skeggjastaðakirkju og Vopnafjarðarkirkju. 

Skeggjastaðakirkju, sem Guðjón Jónsson smíðaði 1845, prýðir prédikunarstóll eftir Hallgrím Jónsson, kirkjan á líka hökla eftir Unni Ólafsdóttur og Sigrúnu Jónsdóttur. Kirkjubæjarkirkja, sem þeir Jón Jónsson og Þorgrímur Jónsson reistu 1851, er með stærstu timburkirkjum frá þeirri tíð. Meðal muna hennar er danskur prédikunarstóll frá 16. öld, sannkallað gersemi, og ljósahjálmur úr kopar frá 17. öld. Í Hofteigskirkju, sem byggð var 1883, er klukka frá 15. öld, kaleikur og patína eftir Indriða Þorsteinsson og altarisdúkur sem Elín Sigríður Benediktsdóttir saumaði. Vigfús Kjartansson smíðaði Áskirkju sem m.a. á klukku frá 13. öld og útdeilingaráhöld í gotneskum stíl, sennilega frá síðmiðöldum. Eiríksstaðakirkja er önnur elsta steinsteypukirkja á Austurlandi, í henni er altaristafla eftir Jóhann Briem sem sýnir Krist á leið til Emmaus ásamt lærisveinum sínum. Kirkjurnar tvær í Vopnafirði eru áþekkar, báðar verk Björgólfs Brynjólfssonar; Hofskirkja á gamlan ljósahjálm og forláta oblátuöskjur frá miðri 19. öld, í Vopnafjarðarkirkju er altaristafla eftir Kjarval sem sýnir Krist flytja fagnaðarerindið. 

Í 25. bindi er sagt frá sex kirkjum í Múlaprófastsdæmi, sem nú er hluti af nýju Austurlandsprófastsdæmi: Bakkagerðiskirkju í Borgarfirði eystra, Eiðakirkju, Hjaltastaðakirkju, Klyppstaðarkirkju í Loðmundarfirði, Seyðisfjarðarkirkju og Þingmúlakirkju í Skriðdal. 

Í Bakkagerðiskirkju, sem Ólafur Ásgeirsson reisti, er fögur altaristafla eftir Kjarval, sem sýnir frelsarann flytja Fjallræðuna á Álfaborginni eystra, útdeilingaráhöld eftir Jón Sigfússon og altarisklæði eftir Sigrúnu Jónsdóttur. Hjaltastaðakirkju smíðuðu þeir Finnbogi Sigmundsson og Þorgrímur Jónsson, í henni er tafla með grafskrift í sama nýklassíska stílnum og kirkjan. Í Eiðakirkju, sem Gísli Sigmundsson byggði, má sjá útskorinn róðukross frá síðmiðöldum, skírnarfat úr tini frá 18. öld og altarisdúk sem Sigrún Sigurþórsdóttir saumaði. Þingmúlakirkja er verk Níelsar Jónssonar, hana prýðir altaristafla eftir Þórarin B. Þorláksson og altarisklæði frá 1764, sömuleiðis kaleikur og patína eftir Guðmund Sigmundsson. Klyppstaðarkirkja er með minnstu kirkjum landsins, látlaus og vinhlý og framúrskarandi vel við haldið þótt byggðin sé komin í eyði. Seyðisfjarðarkirkja er að stofni til byggð upp úr Vestdalseyrarkirkju en samt sjálfstætt verk sem Jón G. Jónasson málarameistari mótaði af hugkvæmni og listfengi, hún er glæsilegt mannvirki, hið innra prýdd útskurði eftir Geir G. Þormar og vel búin gripum. 

Höfundar eru Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrum alþingismaður og ráðherra, Gísli Sverrir Árnason sagnfræðingur, arkitektarnir Hjörleifur Stefánsson og Pétur H. Ármannsson, Lilja Árnadóttir, safnvörður munasafns Þjóðminjasafns, Guðmundur Rafn Sigurðsson, framkvæmdastjóri kirkjugarðaráðs, og Guðlaug Vilbogadóttir, sérfræðingur hjá Minjastofnun Íslands.