Fréttir


18. des. 2015

Framkvæmdaraðili ber kostnað af flutningi verndaðra minja við Reykjavíkurhöfn

Vegna frétta um ætlaðan kostnað vegna verndunar hafnagarðsins við Austurbakka vill Minjastofnun koma eftirfarandi á framfæri:

Frá upphafi mátti framkvæmdaraðila vera ljóst af fyrirliggjandi gögnum að á svæðinu sem byggingarrétturinn nær til, kæmu í ljós menningarminjar sem verðskulduðu vernd, hvort sem hún félli beint undir ákvæði laga um menningarminjar eða þarfnaðist sérstakrar ákvörðunar um vernd samkvæmt lögunum. Getur hann því ekki hafa talist eiga lögmætar væntingar um að geta byggt á lóðinni án þess að þar kæmu í ljós menningarminjar sem kynnu að verða verndaðar samkvæmt heimildum laga um það efni.

Í samkomulagi Minjastofnunar Íslands og Landstólpa þróunarfélags ehf., dags. 25. nóvember 2015, er Landstólpum veitt heimild til að taka niður tímabundið hafnargarða á lóð Austurbakka í Reykjavík og endurhlaða þá samkvæmt skilyrðum sem tilgreind eru í samkomulaginu. Í samkomulaginu er ekki að finna nein ákvæði um að kostnaður falli á ríkið vegna niðurtektar, flutnings, varðveislu og endurbyggingar garðanna. Kostnaður ríkisins af samkomulaginu er því enginn að undanskildum launakostnaði starfsmanna Minjastofnunar Íslands við eftirlit með verkefninu.

Stendur þetta að mati Minjastofnunar Íslands gegn ráðagerðum framkvæmdaraðila um bótaskylt tjón.