Fréttir


19. jún. 2017

Vegna umsagnar Minjastofnunar Íslands um nýbyggingu á lóð Gamla Garðs

Eins og komið hefur fram í fréttum veitti Minjastofnun Íslands umsögn um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands þar sem gert er ráð fyrir nýbyggingu á lóð Gamla Garðs við Hringbraut. Þess misskilnings gætir í umfjöllun um málið að það sé ekki á verksviði  stofnunarinnar að fjalla um skipulagstillögur og að stofnunin hafi tekið það upp hjá sjálfri sér að gera athugasemdir við skipulagsbreytinguna sem um ræðir. Að því tilefni vill Minjastofnun taka fram að umsögn um tillögu að nýbyggingu á lóð Gamla Garðs var veitt samkvæmt ósk skipulagshöfunda að beiðni skipulagsfulltrúans í Reykjavík, enda er tilskilið í 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 að skipulagyfirvöld skuli tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim (lög um menningarminjar nr. 80/2012, 16. gr.).

Minjastofnun Íslands hefur það hlutverk að framfylgja lögum um menningarminjar en tilgangur þeirra er að stuðla að verndun menningarminja; fornleifa, húsa og mannvirkja. Byggingararfur er órjúfanlegur hluti þess menningararfs sem stofnuninni ber að standa vörð um og til hans teljast hús og önnur mannvirki sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, og á það við stök hús eða húsasamstæður, húsaþyrpingar og götumyndir (lög um menningarminjar nr. 80/2012, 4. gr.).

Í umsögn Minjastofnunar kemur fram það mat stofnunarinnar að  fyrirhuguð uppbygging íbúða á lóð Gamla Garðs feli í sér „veruleg og neikvæð umhverfisáhrif þar sem listrænt mikilvægri skipulagsheild er raskað með óafturkræfum hætti. Nýbyggingin brýtur upp samstæða götumynd sunnan Hringbrautar og austan Melatorgs þar sem form Gamla Garðs endurspeglast í safnhúsi Þjóðminjasafnsins. Jafnframt rýfur uppbyggingin samhverfa ásýnd háskólahverfisins beggja vegna skeifunnar og raskar þannig mótuðu umhverfi og ásýnd friðlýstrar aðalbyggingar háskólans.“


Hér má lesa álit stofnunarinnar í heild sinni

.