Fréttir


28. okt. 2010

Laugarnesskóli hefur verið friðaður

 

LaugarnesskoliMeð vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, Laugarnesskóla, Kirkjuteigi 24 í Reykjavík, 14. september 2010, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Friðunin nær til ytra byrðis hússins og miðrýmis skólans í seinni byggingaráfanga hans.

Laugarnesskóli er fyrsta byggingin sem Einar Sveinsson arkitekt teiknaði í embætti húsameistara Reykjavíkur. Byggingin var reist í tveimur áföngum, sá fyrri á árunum 1934-45 en seinni áfanginn 1942-45. Síðari áfangann teiknaði Einar í samvinnu við Ágúst Pálsson arkitekt. Öll uppbygging miðrýmis skólans var mikið nýmæli og er enn ein fegursta rýmismyndun í íslenskri byggingarlistasögu. Mjög var vandað til alls frágangs og efnisnotkunar, sem sést best á því að lítið sem ekkert hefur þurft að huga að viðhaldi á skólanum, hvorki innanhúss né utan.