Fréttir


11. nóv. 2010

Bankahúsin Framnesvegi 20 til 26B, Reykjavík, friðuð

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hin svokölluð Bankahús við Framnesveg í Reykjavík, 14. september 2010, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Bankahusin-2006Friðunin nær til ytra byrðis húsanna. 

Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði Bankahúsin við Framnesveg að enskri fyrirmynd með það að leiðarljósi að íbúar hefðu sjálfstæðan inngang og eigin garð, sem nota mætti til skrúðgarðyrkju og matjurtaræktar. Þau voru reist á árunum 1922-23 og draga nafn sitt af því að Landsbankinn stóð að byggingu þeirra, í því skyni að opna augu fólks fyrir kostum bygginga af þessari gerð og styðja félög og samtök einstaklinga til að byggja slík hús. Um er að ræða 12 íbúða sambyggingu, raðhús á þremur hæðum. Guðjón aðlagaði hugmyndina að þjóðlegum einkennum í byggingarlist og fengu húsin á sig yfirbragð burstabæjar. Húsin eru gott dæmi um það tímabil á þriðja áratug 20. aldar sem kennt hefur verið þjóðernisrómantík í íslenskri byggingarlist. Þau teljast því til ómissandi þjóðminja og gildi þeirra til friðunar er ótvírætt.