Fréttir


10. maí 2011

Friðun Laugavegar 41 í Reykjavík

 

601Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Laugavegi 41 í Reykjavík, 18. apríl 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þegar Húsafriðunarnefnd ákvað að leggja til við ráðherra að friða 11 hús við Laugaveg árið 2007 var einkum litið til þess að húsin hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, flest þeirra hafa einnig mikið listrænt gildi og mörg hver töluvert menningarsögulegt gildi. Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt.

Friðun Laugavegar 41 nær til ytra byrðis hússins við Laugaveg, sem byggt var árið 1898.

Fyrsti eigandi hússins var Arinbjörn Sveinbjarnarson bókbindari. Í upphafi var þetta timburhús aðeins ein hæð, en árið 1903 byggði Arinbjörn hæð og ris ofan á húsið. Aftur gerði hann endurbætur á húsinu árið 1916 og setti þá meðal annars salerni í hús sitt. Arinbjörn rak einnig bókaverslun og er ekki ólíklegt að hún hafi verið í húsinu.

 

Heimildir:

Klemens Jónsson (1929). Saga Reykjavíkur. Síðara bindi. Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan.

Nikulás Úlfar Másson og Helga Maureen Gylfadóttir (2001). Húsakönnun. Laugavegsreitir – miðsvæði. Skýrslur Árbæjarsafns 86. Reykjavík: Árbæjarsafn.