Fréttir


19. maí 2011

Friðun Laugavegar 10 í Reykjavík

 

0742Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Laugavegi 10 í Reykjavík, 28. apríl 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar. Þegar Húsafriðunarnefnd ákvað að leggja til við ráðherra að friða 11 hús við Laugaveg árið 2007 var einkum litið til þess að húsin hafa öll mikið gildi fyrir umhverfi sitt, flest þeirra hafa einnig mikið listrænt gildi og mörg hver töluvert menningarsögulegt gildi. Jafnframt er horft til þess að mikilsvert sé að varðveita byggingarsögulega fjölbreytni þessa hluta miðbæjarins og tengsl Laugavegar við aðliggjandi götur sem margar hafa varðveitt upphaflegt svipmót sitt.

 

Friðun Laugavegar 10 nær til ytra byrðis hússins, sem byggt var árið 1896 úr tilhöggnu grágrýti.

Júlíus A. H. Schau steinsmiður reisti húsið og var jafnframt fyrsti eigandi þess. Schau hafði komið hingað til lands til að vinna við að reisa Alþingishúsið árið 1880. Bygging Alþingishússins og sú verkkunnátta sem varð til í landinu við það verk hafði mikil áhrif á húsagerð í Reykjavík og má segja að Alþingishúsið hafi markað upphaf steinhúsaaldar í bænum. Schau settist hér að, kvæntist Kristínu Magnúsdóttur frá Melkoti og bjó hér í 40 ár. Hann reisti mörg hús í Reykjavík, bæði úr steini og timbri (t.d. Bankastræti 3 og Landakotsskólann), og gerði auk þess veglega legsteina, sem prýða Hólavallagarð, m.a. yfir eiginkonu hans og son.

Húsið sem Schau hlóð að Laugavegi 10 þótti afar sérstakt í upphafi, því það var með flötu þaki, en árið 1902 var sett hallandi þak á húsið. Ekki er víst að Schau hafi búið í húsi sínu við Laugaveg, því hann byggði sér hús að Tryggvagötu 14 til íbúðar og var það hús nefnt eftir honum.

Lengst af hefur ýmist verið verslunar- eða veitingahúsarekstur á jarðhæð hússins.

 

Heimildir:

Björn Th. Björnsson (1988). Minningarmörk í Hólavallagarði. Reykjavík: Mál og menning.

Guðmundur Finnbogason (1943). Iðnsaga Íslands, fyrra bindi. Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Nikulás Úlfar Másson (2000). Byggingasaga. Vestanvert Skólavörðuholt. Skýrslur Árbæjarsafns LXXVIII. Reykjavík: Árbæjarsafn.

Páll Líndal (1991). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur.