Fréttir


6. jún. 2011

Friðun Thorvaldsensstrætis 2 í Reykjavík

Gamli Kvennaskólinn við Austurvöll

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Thorvaldsensstræti 2 í Reykjavík, 19. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Friðunin nær til ytra byrðis framhússins, sem byggt var árið 1878.

Í rökstuðningi Húsafriðunarnefndar með tillögu að friðun segir meðal annars:  Húsið er reist eftir teikningum Helga Helgasonar trésmiðs og tónskálds. Þegar húsið var byggt kemur fyrst fram á Íslandi ný gerð timburhúsa sem kölluð hefur verið timburklassík. Þessi hús voru prýdd klassísku skreyti, s.s. bjórum yfir dyrum og gluggum, flatsúlum og útskornum vindskeiðum auk þess sem sökklar voru hærri og lofthæð meiri en tíðkast hafði fram að þessu. Húsið að Thorvaldsensstræti Thorvaldsensstræti 22 hefur því mikið menningar- og byggingarlistasögulegt gildi og telst því til ómissandi þjóðminja og gildi þess til friðunar ótvírætt.

 

Í Húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur númer 125 segir um Thorvaldsensstræti 2:

Á þessari lóð var fyrst reist hús árið 1835. Í því húsi stofnuðu hjónin Thora Grímsdóttir og Páll Melsted Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874. Þau létu rífa húsið árið 1878 og reistu núverandi hús á lóðinni með þarfir skólans í huga en húsið var jafnframt heimili þeirra hjóna. Framhlið hússins var skreytt með útskornum flatsúlum og yfir inngangi á suðurgafli og gluggum á framhlið voru bjórar en úrskornar vindskeiðar á kvistinum og göflum. Í æviminningum sínum segir Páll Melsted að viðirnir í húsinu hafi verið frá Halmstad í Svíþjóð en allt kalk tekið úr Esjunni. Árið 1880 var komið nýtt geymsluhús úr

bindingi á lóðina og er það virt fram til ársins 1935. Þegar húsið var virt 1915 var í fyrsta sinn minnst á ris og að við vesturhlið hússins væri inngönguskúr. Þá var Hallgrímur Benediktsson kaupmaður orðinn eigandi hússins en hann bjó í því ásamt fjölskyldu sinni til ársins 1928. Árið 1927 var kominn nýr inngönguskúr við suðurgafl hússins með veggsvölum. Húsinu var breytt í skrifstofur árið 1935. Þá var allt húsið járnvarið. Árið 1946 var húsinu breytt og það stækkað með viðbyggingu til vesturs. Húsið var þá allt múrhúðað að utan með skeljasandi. Þá þjónaði það hlutverki samkomu- og veitingahúss. Árið 1997 var hafist handa við endurgerð á húsinu og það fært til eldra horfs. Árið 2002 var húsinu enn á ný breytt í skemmtistað og í dag er skemmtistaðurinn Nasa rekinn í húsinu.

 

Heimildir: 

Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2005). Húsakönnun. Aðalstræti – Vallarstræti – Thorvaldsensstræti – Kirkjustræti. Skýrsla nr. 125. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur.