Fréttir


7. jún. 2011

Friðun Laugavegar 34 í Reykjavík

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, húsið að Laugavegi 34 í Reykjavík, 19. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

Friðunin nær til ytra Laugavegur 34byrðis framhússins.

Verslunarhúsið að Laugavegi 34 teiknaði Þorleifur Eyjólfsson húsameistari árið 1929. Húsið er úr steinsteypu með sérstæðum stíleinkennum höfundar. Húsið er afar sérstakt, gætt ríkri formkennd í eins konar júgendstíl, sem varðveist hefur í því sem næst óbreyttri mynd. Húsið er dæmi um góða byggingarlist 20. aldar sem talið er hafa það mikið varðveislugildi að það eigi að teljast til þjóðminja.

Húsið var teiknað fyrir Guðstein Eyjólfsson kaupmann og klæðskera og hefur allt frá upphafi verið starfrækt herrafataverslun á jarðhæð hússins sem ber nafn Guðsteins. Einnig var rekin sælgætis- og tóbaksverslun í húsinu. Á efri hæðum hússins bjó Guðsteinn með fjölskyldu sinni. Á annarri hæð var starfræktur dansskóli um árabil og þar rak Guðsteinn einnig skyrtugerð og prjónastofu.

 

Heimildir:

Leiðsögn um íslenska byggingarlist (2000). Reykjavík: Arkitektafélag Íslands.

Nikulás Úlfar Másson og Helga Maureen Gylfadóttir (2001). Húsakönnun. Laugavegsreitir - miðsvæði.  Skýrslur Árbæjarsafns nr. 86. Reykjavík: Árbæjarsafn.