Fréttir


8. jún. 2011

Sæbólskirkja á Ingjaldssandi friðuð

 

Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, Sæbólskirkju á Ingjaldssandi, 18. maí 2011, að tillögu Húsafriðunarnefndar.

SæbólskirkjaFriðunin nær til kirkjunnar í heild sinni.

Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði Sæbólskirkju og er hún ein af hans fyrstu kirkjuteikningum. Kirkjan var vígð í september 1929 og ber höfundi sínum og söfnuði fagurt vitni.

Í aftakaveðri í janúar 1924 fauk timburkirkja sem reist hafði verið á Ingjaldssandi árið 1858. Þá efni 70 manna söfnuður kirkjunnar til fjársöfnunar um Dýrafjörð, Önundarfjörð og meðal brottfluttra í Reykjavík, svo unnt yrði að byggja nýja kirkju. Það var gert árið 1929 og var kirkjan vígð 29. september sama ár. Smiður kirkjunnar var Torfi Hermannsson, sem ættaður var frá Fremstuhúsum í Dýrafirði. Altaristöfluna málaði Björn Guðmundsson, kennari og síðar skólastjóri á Núpi, eftir forsögn séra Sigtryggs Guðlaugssonar sem var prestur við kirkjuna og hann vígði hana. Torfi kirkjusmiður smíðaði og gaf skírnarfontinn, en skírnarskálin er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Guðrún Vigfúsdóttir frá Tungu í Valþjófsdal málaði skírnarfontinn. Útskurður í kirkjunni er eftir Jón Jónsson bónda og kirkjuhaldara á Sæbóli.

 

Heimild: 

Guðrún Edda Gunnarsdóttir, sóknarprestur Sæbólskirkju (1999). Sögulegt yfirlit samantekið á 70 ára afmæli Sæbólskirkju árið 1999.