Fréttir


31. mar. 2022

Ný vefsjá

Ny-vefsjaNý vefsjá Minjastofnunar Íslands hefur verið tekin í gagnið. Vinna við vefsjána, sem unnin var í samstarfi við Landmælingar Íslands, hefur staðið yfir undanfarna mánuði og vonast Minjastofnun til þess að vefsjáin mælist vel fyrir hjá notendum hennar.

Vefsjáin hefur svipað yfirbragð og fyrri vefsjá en þó eru ýmsar nýjungar kynntar til sögunnar. Fleiri grunnkort eru nú í boði, en auk myndkorta, sem aðgengileg voru í eldri vefsjá, hafa nú bæst við fleiri grunnkort, svo sem herforingjaráðskort Dana, Atlaskort og hæðarlíkan. Í vefsjánni er nú að finna upplýsingar um skráð hús og mannvirki, aldursfriðaðar og friðlýstar fornleifar, fornleifaskráningarverkefni og fornleifarannsóknir auk þess sem nú er hægt að velja aðrar gagnaþekjur af ýmsu tagi. Þar má m.a. nefna örnefnaþekju Landmælinga Íslands, þar sem hægt er að leita í grunni sem telur rúmlega 150 þúsund örnefni. Einnig er hægt að skoða sveitarfélagamörk frá hinum ýmsu tímum sem og ljósmyndir og kort sem unnin voru af dönskum landmælingamönnum í upphafi síðustu aldar og mörkuðu upphaf kortlagningar Íslands.

Samhliða gerð þessarar nýju vefsjár hefur aðgengi að landfræðilegum gögnum Minjastofnunar verið aukið til muna og í samvinnu við Landmælingar Íslands eru gögnin aðgengileg í gegnum WMS og WFS tengingar. Í gegnum þær tengingar er hægt að vinna með gögnin á auðveldan máta í helstu GIS forritum, en eins og áður er einnig hægt að hlaða gögnunum niður beint af vefsjánni.

Minjastofnun minnir á að Minjavefsjáin er ekki tæmandi yfirlit um fornleifar, hús og mannvirki á Íslandi, sem njóta verndar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

Nýju vefsjána má nálgast hér .


Stofnunin minnir á vefsíðuna https://skyrslur.minjastofnun.is/ þar sem hægt er að lesa og hlaða niður rafrænum eintökum af þeim fornleifaskráningarskýrslum sem stofnuninni hafa borist. Á heimasíðu Minjastofnunar má enn fremur nálgast yfirlit yfir húsakannanir- og skráningar sem stofnuninni hafa borist en þær má finna á slóðinni https://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/husakannanir/