Fréttir


7. apr. 2020

Óvæntur fornleifafundur

á aðalskrifstofu Minjastofnunar á Suðurgötu í Reykjavík

Frá því í nóvember á síðasta ári hafa miklar framkvæmdir verið í kjallara aðalskrifstofu Minjastofnunar á Suðurgötu 39 í Reykjavík. Í ljós kom leynd mygla í stórum hluta rýmisins, rífa þurfti allt innan úr kjallaranum, komast fyrir mygluna og að lokum endurinnrétta. Nú er sú vinna komin vel á veg. Ákveðið var að nýta tækifærið og opna á milli tveggja rýma í suðurenda hússins með því að setja þar dyr. Við þá vinnu kom í ljós gömul hurð, líklega upprunaleg, sem lokað hefur verið og klætt yfir. Allt bendir til þess að þessi breyting á rýminu hafi átt sér stað um eða rétt fyrir 1972, en þá flutti Sjálfstæðisflokkurinn úr húsinu og því var breytt í barnaheimili. Sjálfstæðisflokkurinn hafði bækistöðvar sínar í húsinu frá 1956, enda þekkja margir það undir heitinu Valhöll, og höfðu Heimdellingar m.a. sína aðstöðu í kjallaranum á tímabili. Tímasetning þessara breytinga er metin út frá miða sem fannst á hurðinni sem falin var inni í veggnum:

„Bannað að opna hurðina. Hér eru kommar. As everywhere“. 

Varud-kommar

Af rithöndunum að dæma hafa hér þrír einstaklingar átt hlut að máli. Líklega hefur nú fyrsti hlutinn verið skrifaður af ráðsettum aðila í húsinu, en spurning hvort Heimdellingar hafi átt heiðurinn að seinni tveimur athugasemdunum. Kannast einhver við það að eiga þessar fleygu athugasemdir? Og af hverju var bannað að opna þessa hurð? 


S-39-hurd