Fréttir


11. des. 2018

Styrkur til fjarvinnsluverkefnis á Djúpavogi

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra veitti nýverið verkefnastyrki vegna fjarvinnslustöðva, á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Alls bárust 16 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 180 m.kr.

Minjastofnun Íslands fékk styrk upp á 21 milljón króna til eins af þeim fjórum verkefnum sem styrkt voru að þessu sinni. Snýst verkefnið um fjarvinnslu við skráningu minningarmarka í gagnagrunn. Fyrsta skref verkefnisins er að klára smíði gagnagrunns fyrir minningarmörk. Er undirbúningur þeirrar vinnu hafinn og mun henni vonandi ljúka snemma á næsta ári. Fljótlega verður auglýst eftir starfsfólki á Djúpavogi vegna skráningar minningarmarka inn í gagnagrunninn.

Samstarfsaðilar Minjastofnunar í verkefninu eru Djúpavogshreppur og Austurbrú. Minjastofnun Íslands er þakklát fyrir styrkinn og samstarfið og glöð yfir því að loksins verði hægt að koma þessu mikilvæga verkefni vel á veg.