Fréttir


22. ágú. 2019

Þorpið í Flatey staðfest sem verndarsvæði í byggð

IMG_20160606_174039BLaugardaginn 17. ágúst sl. staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, tillögu Reykhólahrepps um stöðu þorpsins í Flatey sem verndarsvæði í byggð. Var staðfestingin undirrituð við hátíðlega athöfn á Hótel Flatey að viðstöddum forstöðumanni Minjastofnunar Íslands, Kristínu Huld Sigurðardóttur, og verkefnastjóra verndarsvæða hjá Minjastofnun, Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur, ásamt sveitarstjóra Reykhólahrepps og fleiri gestum.

Tilgangur verndarsvæða í byggð er að stuðla að verndun byggðar sem varðveisluverð er vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis. Er þorpið í Flatey fimmta verndarsvæðið á landinu sem hlýtur staðfestingu ráðherra. Hin fjögur eru: Garðahverfi á Álftanesi, byggðin við Voginn á Djúpavogi, Þormóðseyri á Siglufirði og Borðeyri.

Lögum samkvæmt gera sveitarfélög tillögu til ráðherra um að tiltekin byggð innan sinna vébanda verði verndarsvæði í byggð. Minjastofnun Íslands veitir sveitarfélögum rágjöf við undirbúning tillagna um verndarsvæði í byggð og geta sveitarfélög sótt um styrk til húsafriðunarsjóðs til tillögugerðar. Minjastofnun veitir ráðherra umsögn um tillögur að verndarsvæðu í byggð og byggir ákvörðun ráðherra um staðfestingu tillagna m.a. á þeirri umsögn.