Fréttir


24. jan. 2020

Umsagnir Minjastofnunar vegna Þjóðgarðastofnunar og Hálendisþjóðgarðs

Frumvörp um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða, og Hálendisþjóðgarð

Minjastofnun Íslands hefur sent inn umsagnir um drög að frumvörpum til laga um Þjóðgarðastofnun og þjóðgarða annars vegar og Hálendisþjóðgarð hins vegar. Ljóst er að verði frumvörpin að lögum óbreytt, mun það hafa veruleg áhrif á framkvæmd minjavörslu í landinu og skapa óvissu um stjórnsýslu málaflokksins á um 40% landsins. Minjastofnun gerir alvarlegar athugasemdir við þessi frumvarpsdrög og bendir á að stofnunin hefur ekki haft aðkomu að gerð þeirra. Ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til laga um menningarminjar nr. 80/2012 og starfssviðs Minjastofnunar Íslands. Minjavarsla á Íslandi á sér langa hefð og byggir í grunninn á lögum um verndun fornmenja frá 1907. Í frumvarpsdrögum skortir heildarsýn um hvernig framkvæmd minjavörslu er háttað í landinu, í þjóðgörðunum og á friðlýstum náttúruverndarsvæðum og hvernig hún samræmist framkvæmd minjavörslu á landsvísu.
Minjastofnun Íslands lítur svo á að aukið hlutverk þjóðgarða við vernd og eftirlit með menningarminjum geti orðið til heilla fyrir framkvæmd minjavörslu í landinu en mikilvægt sé að hin nýju lög verði ekki til þess að flækja umhverfi minjavörslunnar og skapa óvissu um valdsvið og hlutverk stofnana eins og yrði ef ekki verður unnið betur með frumvarpið.

Umsagnir Minjastofnunar Íslands sem sendar voru til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis má finna í heild sinni hér: 

Þjóðgarðastofnun og þjóðgarðar. Umsögn Minjastofnunar Íslands

Hálendisþjóðgarður. Umsögn Minjastofnunar Íslands