Fréttir


15. okt. 2018

Víkurgarður (Gamli kirkjugarðurinn við Aðalstræti) - undirbúningur friðlýsingar

Minjastofnun Íslands hefur ákveðið að hefja undirbúning tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um friðlýsingu Víkurkirkjugarðs (Fógetagarðs) við Aðalstræti í Reykjavík (landnr. 100854). Samkvæmt 18. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 má friðlýsa fornleifar sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.

Minjastofnun leggur til að friðlýsingin taki til svæðis innan lóðamarka Víkurgarðs.

Með hliðsjón af 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur bréf verið sent til allra hagsmunaaðila og var þeim veittur frestur til 15. október til að bregðast við tillögu Minjastofnunar.  Reykjavíkurborg óskaði eftir framlengingu á fresti og var hann veittur til 22. október. Þegar umsögn Reykjavíkurborgar hefur borist mun Minjastofnun væntanlega ljúka við gerð tillögunnar og senda til mennta- og menningarmálaráðherra sem tekur í framhaldi af því ákvörðun um hvort að friðlýsingu verður og með hvaða skilmálum, sbr. 18. gr. laga nr. 80/2012.

Ekki verða veittar upplýsingar um gang mála fyrr en ákvörðun ráðherra liggur fyrir.