Feneyjaskráin

Sögulegar minjar þjóðanna hafa í sér fólgin andleg verðmæti úr fortíðinni og eru því lifandi vitnisburður í samtíðinni um það sem geymst hefur um aldir. Mannkynið, sem stöðugt vex til aukinnar vitundar um að mannleg verðmæti eru ein heild, lítur á minjarnar sem sameignilega arfleifð og ber óskipta ábyrgð á varðveislu þeirra gagnvart komandi kynslóðum. Það er skuldbundið til að varðveita þær áfram ófalsaðar í fjölbreytni sinni.

Þess vegna er afar mikilvægt að þær grundvallarreglur sem gilda eiga um varðveislu og endurbyggingu verði mótaðar í sameiningu og settar fram á alþjóðavettvangi, en hverri þjóð verði síðan falið að breyta þeim innan marka menningar sinnar og hefða.

Í Aþenuskránni frá 1931 voru þessar grundvallarreglur fyrst settar fram, og hún stuðlaði þannig að því að efla víðtækt alþjóðasamstarf sem glöggt sér stað í samþykktum þjóða, í starfi ICOMOS og UNESCO, og í "Alþjóðlegri miðstöð til rannsókna á varðveislu og endurbyggingu menningarminja," sem síðastnefndu samtökin stofnuðu.[1] Af mikilli kostgæfni og gagnrýninni hugsun hefur verið glímt við æ flóknari og margvíslegri vanda, og nú hlýtur að vera tímabært að fara yfir grundvallarreglur skrárinnar og semja nýja skrá þar sem þær eru settar fram ýtarlegri og víðfeðmari en áður.

Í samræmi við það samþykkti 2. alþjóðaráðstefna endurbyggingararkitekta og tæknimanna sem stóð í Feneyjum 25.-31. maí 1964 eftirfarandi:

Skilgreiningar

1. grein. Með "sögulegum minjum" er bæði átt við einstök verk byggingarlistar og svæði í þéttbýli eða landslagi, þar sem er vitnisburður um sérstaka siðmenningu, mikilvæga þróun eða sögulegan atburð. Hugtakið nær ekki aðeins yfir verk sem eru stór í sniðum heldur einnig það sem lítið lætur yfir sér, en hefur þegar tímar liðu orðið mikilvægt frá menningarlegu sjónarmiði.

2. grein. Varðveisla og endurbygging sögulegra minja (vinnan að varðveislu þeirra) er fræðilegt verkefni þar sem liðveislu er leitað á öllum þeim vísinda- og tæknisviðum sem mögulega geta komið að gagni við að rannsaka og vernda þær sögulegu minjar sem teknar hafa verið í arf.

3. grein. Markmið varðveislunnar er að vernda bæði listaverkið og hinn sögulega vitnisburð.

Varðveisla

4. grein. Varðveisla sögulegra mina krefst þess fyrst og fremst að tryggt sé stöðugt viðhald þeirra.

5. grein. Varðveisla sögulegra minja verður oftast auðveldari en ella ef þær eru nýttar í þágu samfélagsins. Þess vegna má mæla með slíkri notkun, en við hana mega ekki verða breytingar sem varða byggingarlist minjanna og útlit. Aðeins að því skilyrði uppfylltu má skipuleggja og samþykkja ráðstafanir sem nauðsynlegar teljast vegna þeirra hátta sem nú tíðkast.

6. grein. Í varðveislu minja er fólgin varðveisla viðeigandi umgerðar. Ef umhvefið er varðveitt frá fornu fari og fylgir hinum sögulegu minjum, verður að viðhalda því og banna allar nýbyggingar, einnig niðurrif og breytingar sem breyta stærðarhlutföllum eða litasamhengi.

7. grein. Sögulegar minjar verða ekki greindar frá þeirri sögu sem þær eru vitnisburður um eða frá því umhverfi sem þær standa í. Því er aðeins unnt að fallast á flutning sögulegra minja, að hluta eða í heild, þar sem vernd þeirra krefst þess eða þar sem mikilvægir hagsmunir þjóðarinnar eða alþjóðlegir hagsmunir réttlæta flutnig.

8. grein. Sögulega byggingu má ekki svipta höggmyndum, málverkum eða skrauti sem er órofa hluti hennar, nema það sé eina úrræðið til að tryggja varðveilsu þess.

Endurbygging

9. grein. Endurbyggingu ætti að líta á sem aðferð er aðeins verði gripið til sem undantekningar. Markmið hennar er að tryggja og kalla fram að nýju fagurfræðilegt og sögulegt gild minjanna, og hún felur í sér að virðing er borin fyrir varðveittum hlutum þeirra og sannanlega skjalfestum staðreyndum. Henni sleppir þar sem tilgáturnar taka við. Þar sem um er að ræða endurgerð byggða á tilgátum, verða allar viðbætur, sem óhjákvæmilegar eru af fagurfræðilegum eða tæknilegum ástæðum, að koma glöggt fram í byggingarlist minjanna í heild og bera svipmót nútímans. Áður en til endurbyggingar kemur og samtímis henni, skal alltaf gera ýtarlegar fornleifa- og sagnfræðirannsóknir.

10. grein. Þar sem ljóst er að hefðbundin tækni er ófullnægjandi, er unnt að tryggja varðveislu sögulegra minja með nútímalegum varðveislu- og byggingarefnum sem sannreynt er vísindalega og tryggt af reynslu að séu nothæf.

11. grein. Viðbyggingar sem eitthvað kveður að, frá hvaða tímabili sem þær kunna að vera, ber að virða, enda er einn og sami heildarsvipur - hvað sem byggingarstíl varðar - ekki markmið að keppa að við endurbyggingu.

Þar sem byggingu hefur verið breytt hið ytra ofta en einu sinni, og hið nýja hefur að heita má verið lagt ofan á hið gamla, er því aðeins unnt að réttlæta afhjúpun þess sem undir er með því, að það sem burt er tekið hafi einungis hverfandi þýðingu, að það sem undir er sé vitnisburður með mikið sögulegt, fornleifafræðilegt eða fagurfræðilegt gildi og að það sé í fullnægjandi ástandi til varðveislu. Ekki er rétt að mat á einstökum byggingarhlutum og ákvörðun um hvað fjarlægja skuli sé aðeins undir þeim aðila komið sem stjórnar verkinu.

12. grein. Byggingarhlutar, sem koma eiga í stað hluta sem vantar, verða að samræmast heildinni, en skera sig þó úr þeim hlutum sem eru umhverfis þá, þannig að endurbygging verði ekki til að falsa hinn listræna og sögulega vitnisburð.

13. grein. Viðbætur er ekki unnt að fallast á nema þær séu í samræmi við mikilvægustu hluta byggingarinnar, heildarmyndina eins og við höfum tekið hana í arf, jafnvægið í uppbygingu hennar og afstöðu hennar til umhverfisins.

Svæði sem hafa sögulega þýðingu

14. grein. Varðandi söguleg borgarhverfi skal sýna sérstaka aðgæslu og taka mið af því að þau verði varðveitt sem heild og að þar ríki viðunandi heilbrigðisástand, að þar sé séð fyrir nútíma þægindum og séð um að viðhalda húsum sem hafa hrörnað. Varðveislustarf sem þar á að vinna verður að vera í anda þeirra meginreglna sem settar hafa verið fram í greinunum hér á undan.

Fornleifagröftur

15. grein. Fornleifagröft ber að framkvæma í samræmi við vísindalegar venjur og "Leiðbeiningar um alþjóðlegar reglur varðandi fornleifauppgröft"[2] sem samþykktar voru hjá UNESCO árið 1956.

Tryggja þarf frágang rústa og nauðsynlegar reglur um varðveislu og vernd bæði byggingarhluta og lausafunda. Annars ætti að íhuga sérhverja þá aðferða sem auðveldað gæti rannsóknir á afhjúpuðum minjum án þess að sögulegt mikilvægi þeirra bíði skaða af.

Meginreglan ætti þó að vera sú að hvers kyns endurbygging sé óheimil. Aðeins er unnt að heimila "anastylosis", þ.e. að setja saman brotna byggingarhluta sem til eru. Tengihluta verður ætíð að vera auðvelt að greina og þá verður að nota í eins litlum mæli og unnt er til að varðveita megi minjarnar og endurskapa samhengi formanna.

Skráning og útgáfa

16. grein. Allri varðveisluvinnu, endurbyggingu og fornleifagrefti verður að fylgja nákvæm skráning heimilda í greinandi og gagnrýninni skýrslu með teikningum og ljósmyndum. Þar skal greina frá öllum þáttum starfsins sem fela í sér að eitthvað er tekið í sundur, styrkt, endurbyggt eða sett saman, enn fremur öllum tæknilegum atriðum og formeiningum sem fundist hefur vitnisburður um meðan á rannsókn stóð. Þetta heimildasafn skal leggja í opinbert skjalasafn og skal vera aðgengilegt fræðimönnum. Mæla verður með útgáfu.

Sveinbjörn Rafnsson prófessor þýddi.

[1] International Centre for the Study of the Preservation and the Restoration of Cultural Property í Róm, skammstafað ICCROM.

[2] Recommendation on International Principles Applicable to Archaeological Excavations.