Um okkur
Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með verndun fornleifa- og byggingararfs á Íslandi. Lög um menningarminjar voru sett 2012 og tóku gildi 1. janúar 2013. Með lögunum voru sameinaðar tvær stofnanir, Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd. Stofnunin heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.
Hér má sjá stutt kynningarmyndband um starfsemi Minjastofnunar og lög um menningarminjar.
Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar. Samkvæmt lögunum er hlutverk stofnunarinnar að:
- hafa eftirlit með fornleifum í landinu og friðuðum húsum og mannvirkjum,
- vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa og byggingararfs ásamt fagnefndum,
- setja reglur um og hafa yfirumsjón með skráningu friðaðra og friðlýstra fornleifa, húsa og mannvirkja,
- halda heildarskrár um allar friðaðar og friðlýstar fornleifar, friðlýsta legsteina og minningarmörk og friðuð og friðlýst hús og mannvirki,
- gera tillögur til ráðherra um friðlýsingu og afnám hennar,
- ákveða skyndifriðun menningarminja ef þörf krefur,
- setja reglur og skilyrði um rannsóknir fornleifa sem hafa jarðrask í för með sér og hafa eftirlit með öllum fornleifarannsóknum í landinu,
- fjalla um og veita leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér,
- framkvæma nauðsynlegar rannsóknir, svo sem neyðarrannsóknir, vettvangskannanir til að staðfesta umfang og eðli minja og aðrar skyndirannsóknir,
- hafa eftirlit með og annast leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja til annarra landa,
- úthluta úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði að fengnum umsögnum fagnefnda og annast umsýslu þeirra,
- hafa eftirlit með framvindu verkefna sem fá styrk úr sjóðunum,
- ákveða aðra ráðstöfun fjár úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði í samráði við húsafriðunarnefnd og fornminjanefnd,
- annast framkvæmd laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa,
- setja á fót minjaráð á hverju minjasvæði og bera ábyrgð á starfsemi þeirra,
- annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra.