Eldri samstarfsverkefni

Minjaslóð - smáforrit

Minjaslóð er smáforrit sem inniheldur bæði Minjaleit og Minjaslóð. Minjaleit er fjársjóðsleit fyrir yngri kynslóðina þar sem unnið er með sögu hafnarsvæðisins í Reykjavík. Minjaslóð inniheldur fimmtán upplýsingapunkta á hafnarsvæðinu í Reykjavík þar sem hægt er að fræðast um höfnina, sögu hennar og hlutverk, s.s. í tengslum við fullveldi og aukið sjálfstæði Íslands. Forritið opnast sjálfkrafa á Minjaslóð en Minjaleit opnast þegar skjárinn er dreginn með fingri frá hægri til vinstri. Minjaleit hefst við Sjóminjasafnið í Reykjavík og virkar eingöngu á hafnarsvæðinu. Minjaslóð er hægt að opna og skoða bæði á hafnarsvæðinu en einnig heima eða hvar sem er.

Að smáforritinu standa Faxaflóahafnir, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Minjastofnun Íslands í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands og Menningararfsári Evrópu 2018.

Gamlar ljósmyndir koma frá Borgarsögusafni.

Fullveldi100_adalutgafa

Um textagerð í Minjaslóð sá Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur.

Þorsteinn Gunnarsson, leikari og arkitekt, les texta bæði í Minjaslóð og Minjaleit.

Allar myndir sem teknar eru í Minjaleit birtast ef smellt er hér .


Menningararfsár Evrópu 2018

Ákveðið hefur verið að árið 2018 verði tileinkað menningararfi Evrópu og er það haldið hátíðlegt um alla álfuna. Menningararfsár Evrópu er haldið að frumkvæði Evrópusambandsins í samstarfi við Evrópuráðið. Markmið ársins er að vekja athygli á og fagna fjölbreyttum menningararfi Evrópu, sem stendur traustum fótum í byggingarlist, fornleifum og fornum ritum en er þó í senn bráðlifandi í dag allt umhverfis okkur, m.a. í listum og nýsköpun. Þetta endurspeglast í einkunnarorðum ársins: Menningararfurinn, forn og nýr í senn.

Minjastofnun Íslands var falið af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu að vera í forsvari vegna skipulagningar Menningararfsárs Evrópu 2018 hér á landi. Minjastofnun sér um um að veita upplýsingar um árið, í samvinnu við aðrar menningarstofnanir sem fara með verndun menningararfsins; Þjóðminjasafn Íslands, Árnastofnun, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands.

Menningararfsárinu er ætlað að auka gildi menningararfsins fyrir einstaklinga og samfélög; að kynna auðugan og fjölbreyttan menningararf Evrópu og hvetja fólk til að ígrunda þann sess sem menningararfur hefur í lífi okkar allra og hvað við getum gert til verndunar hans.

Menningararfurinn á þátt í því að byggja upp sterkari samfélög, hann getur skapað störf og hagsæld, m.a. í ferðaþjónustu, og er mikilvægur fyrir sjálfsmynd okkar og jákvæð samskipti við aðra hluta heimsins.

Evrópskur menningararfur er fjölbreyttur en þótt hann virðist ólíkur liggja margvíslegir þræðir og tengingar þvert yfir landamæri og á milli samfélagshópa. Því er hvatt til þess nú í ár að fólk bæði deili menningararfi sínum sem og kynnist arfi annara hópa og samfélaga. Með þessu eykst meðvitund um sameiginlega sögu okkar í Evrópu og um sameiginleg gildi þeirra þjóða sem standa okkur næst. Í gegnum menningararfinn öðlumst við skilning á fortíðinni og höfum áttavita til framtíðar.

Árið 1975 var haldið húsverndarár í Evrópu. Þá var sjónum sérstaklega beint að byggingararfi álfunnar og mikilvægi verndunar gamalla húsa og mannvirkja. Árið 1975 hafði mikil áhrif hér á Íslandi og var mikilvægur hluti almennrar hugarfarsbreytingar um gildi byggingararfs þjóðarinnar, ekki síst fyrir tilstilli einstaklinga sem börðust á þessum tíma fyrir gamalli byggð Reykjavíkur. Áhrifin eru þau að í dag hefur gömlum húsum og mikilvægu menningarlandslagi verið gert til góða víða um land.

Meginþema Menningararfsársins 2018 hér á Íslandi er Strandmenning. Varð það þema fyrir valinu af tveimur ástæðum. Annars vegar að það er um hafið sem Ísland tengdist Evrópu og að allt frá landnámi og fram á 20. öld fóru öll samskipti við útlönd um hafnir landsins; hvort sem um verslun, fólksflutninga eða útbreiðslu nýrra hugmynda var að ræða. Hins vegar er það svo að með loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar stafar fornleifum og öðrum menningarminjum við strandir landsins hætta af ágangi sjávar. Það er því von okkar að árið 2018 veki fólk til umhugsunar um þær viðkvæmu og mikilvægu menningarminjar hér á Íslandi sem eru í sífellt meira mæli að verða náttúruöflunum að bráð, á sama hátt og fólk áttaði sig á gildi gamalla húsa árið 1975.

Fjölbreyttir viðburðir verða á dagskrá Menningararfsárs Evrópu um land allt. Verða þeir í höndum framangreindra menningarstofnana sem og annarra fyrirmyndaraðila, safna og annarra sem tengjast menningararfi á Íslandi hringinn um landið .

Viðburðahaldarar fá að nota merki menningararfsársins fyrir sína viðburði og vísa þannig til ársins og sameiginlegra markmiða þess.

Hér má finna dagskrá ársins.

CERCMA Cultural Environment as Resource in Climate Change Mitigation and Adaption

CERCMA var samnorrænt verkefni um hættuna sem steðjar að menningararfinum vegna loftslagsbreytinga. Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, var fulltrúi Minjastofnunar í samstarfinu en auk hans tók annar Íslendingur, Gísli Pálsson hjá Fornleifastofnun Íslands ses., einnig þátt í verkefninu. Tveggja daga vinnustofa var haldin í Helsinki í Finnlandi þar sem fjöldi sérfræðinga frá Finnlandi, Íslandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku hittist og ræddi áhrif loftslagsbreytinga á menningarminjar á hverjum stað. Afrakstur vinnustofunnar var skýrsla um málið sem kom út árið 2014.

ARCHES

Minjastofnun Íslands tók þátt í samevrópsku verkefni, ARCHES. Tilgangur verkefnisins er að koma sér saman um evrópskan staðal sem gagnast í stjórnun og meðhöndlun menningararfsins í Evrópu og til að búa til „best practice“ handbók um varðveislu, meðhöndlun og flutning gagna sem verða til við fornleifafræðilegar rannsóknir.

Unnið verður að verkefninu í samvinnu átta samstarfsaðila frá sjö Evrópuríkjum sem munu í framhaldinu taka upp sameiginlega staðla um varðveislu gagna og gripa úr fornleifarannsóknum. Það mun auðvelda stjórnun úrræða á varðveislu gagna og gripa en einnig auka möguleika fagaðila til að vinna að faginu í öllum þeim löndum sem hafa tekið upp staðlana.

Fornleifafræðilegt gagnasafn samanstendur af öllum gögnum og fundum úr fornleifarannsóknum sem talin eru varðveisluhæf. Þar með eru gripir sem og skrifleg, teikninga og ljósmynda gögn sem og stafræn gögn um rannsóknarstaðinn og funda- og sýnasafn. Árangursrík varðveisla slíkra gagnasafna mun velta á því að menn taki upp góðar starfsvenjur (best pracitce) þegar gagnasöfnin verða til, þau flokkuð og færð og tekin til varðveislu.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á:

http://archaeologydataservice.ac.uk/arches/Wiki.jsp?page=Main

Minjastofnun hélt, 3. apríl 2013, vinnufund með fagaðilum hér á Íslandi til að ræða tillögur að slíkum stöðlum. Sá hópur hefur skilað af sér athugasemdum og bíður nú eftir næstu skrefum sem verða tillögur um lokaútgáfu staðlana. Fundarmenn voru mjög jákvæðir fyrir slíkum stöðlum og sambærilegri vinnu á ýmsum sviðum menningararfsins.

[This project has been funded with support from the European Commission. This publication [communication] reflects the views only of the author, and the Commission cannot be held responsible for any use which may be made of the information contained therein.]

Handbókin kom út árið 2014. Hún ber heitið Staðall og leiðbeiningar um bestu starfsvenjur við fornleifafræðilega gagnavörslu í Evrópu (The Standard and Guide to Best Practice in Archaeological Archiving in Europe).

                                                                                                                                      

Lógó ARCHESLógó EAC


CARARE

Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd tóku saman þótt í Evrópuverkefninu CARARE. CARARE er netverk sem er ætlað að ýta undir vönduð vinnubrögð, samvinnu og samhæfingu þátttakenda og er styrkt af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (sjá ICT PSP). CARARE leiðir saman margar stofnanir og fyrirtæki með mismunandi hlutverk víðs vegar úr Evrópu til að koma á fót þjónustu sem mun gera stafrænt efni um fornleifar og sögustaði samhæft við vefgáttina Europena.

 Verkefnið hófst 1. febrúar 2010 og mun standa yfir í þrjú ár. Meginmarkmið þess er að virkja og styðja við net minjavörslustofnana, fornleifafræðilegra safna, rannsóknarstofnana og sérhæfðra stafrænna gagnasafna við að:

  • gera stafræn gögn, sem þau hafa í sínum fórum um fornleifar og byggingararfinn, aðgengileg í gegnum vefgáttina Europeana,

  • samhæfa gögn og koma á fót gagnaþjónustu,

  • og gera það kleift að miðla áfram þrívíddargögnum og sýndarveruleika í gegum Europeana.

CARARE er eitt þeirra verkefna sem styrkt er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að ýta undir frekari þróun Europeana. Það mun gegna því mikilvæga hlutverki að fá net stofnana í Evrópu sem eru ábyrgar fyrir rannsókn, vernd og miðlun upplýsinga á minjastöðum, byggingararfinum, sögulegum bæjarkjörnum og iðnaðarminjum til að taka þátt í verkefninu. Stofnanir þessar vinna á mismunandi grundvelli, sumar á landsvísu, aðrar á mun minna svæði. Þátttaka þessara mismunandi stofnana mun ekki einungis leggja til fjölbreytt efni um minja- og byggingararfinn heldur einnig auka á fjölbreytni gagnasniða því CARARE stefnir að því að að gera tvívíddar og þrívíddar gögn um minjastaði samhæfð og aðgengileg í gegnum Europeana. Í dag standa að CARARE verkefninu 29 aðilar frá 20 löndum en stýring verkefnisins CARARE er í höndum Kulturarvsstyrelsen og MDR Partners.

 Að verkefninu unnu, fyrir Íslands hönd, Sólborg Una Pálsdóttir, Sigurður Bergsteinsson hjá Fornleifavernd ríkisins og Guðlaug Vilbogadóttir hjá Húsafriðunarnefnd. Framlag Íslendinga var annars vegar gagnasafn um friðlýstar fornleifar á Íslandi og hins vegar gagnasafn um friðuð hús á Íslandi. Viðbótarstyrkir hafa fengist til að gefa námsmönnum tækifæri til að taka þátt í verkefninu og hefur það gefist afar vel fyrir alla aðila. Árið 2010 unnu að verkefninu, auk vinnuhóps, Unnur Magnúsdóttir fornleifafræðingur og mastersnemi í hagnýtri menningarmiðlun og Karl Emil Karlsson nemi í tölvunarfræði.

Áhrif loftlagsbreytinga á minjar og menningarlandslag

Um nokkurra ára skeið tók Fornleifavernd ríkisins þátt í samnorrænu verkefni um áhrif loftlagsbreytinga á minjar og menningarlandslag. Þátttakendur komu frá sjö löndum: Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Danmörk, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Inga Sóley Kristjönudóttir, Fornleifavernd ríkisins, tók þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands. Nú er komin út skýrslan “Klimaendringer og kulturarv i Norden” þar sem niðurstöður verkefnisins eru kynntar.

Menningar- og minjavernd á norðurslóð

Stjórnsýslan á Grænlandi, Íslandi og Svalbarða þarf að taka afstöðu til margra áleitinna spurninga um hvernig tryggja megi minjavernd og varðveislu staða sem tengjast menningararfi íbúa. Menningarumhverfi á norðurslóð er afar viðkvæmt og því er mikilvægt að miðla milli landanna þekkingu og reynslu af því hvernig staðið hefur verið að verndun minja og menningarlandslags. Ný skýrsla um menningarumhverfi endurspeglar vilja til þess að efla samstarf á sviði stjórnsýslu og löggjafar fyrir menningar- og minjavernd á norðurslóð. Í skýrslunni eru kynntar til sögunnar grundvallarreglur um stjórnun verndarstarfs sem styðjast má við til að tryggja sjálbæra varðveislu menningarumhverfis. Lögð er áhersla á að leiðbeiningarnar séu almennar og að þær séu grundvöllur fyrir stjórnsýslu á þessu sviði í löndum við heimskautsbaug. Þór Hjaltalín, Minjavörður Norðurlands vestra, tók þátt þessari norrænu samvinnu fyrir hönd Íslendinga og er hann einn af höfundum skýrslunnar. Mikilvæg forsenda fyrir vali á menningarlandslagi og þar með minjavernd, er samspil og samverkandi þættir í náttúrufari og menningarumhverfi.

Vernekriterier for geologiske forekomster og kulturminner

Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar var á árinu 2002 hrundið af stað samstarfsverkefni Íslands, Grænlands og Svalbarða undir heitinu:Vernekriterier for geologiske forekomster og kulturminner. Samstarfshópi fulltrúa þessara landa var ætlað að ræða hvaða forsendur hafi verið lagðar til grundvallar fyrir friðun náttúru- og menningarminja í viðkomandi löndum. Rætt var almennt um verndarviðmið og verndargildi, hvort hægt væri að mæla verndargildi náttúru- og menningarminja og hvort slíkt gæti gagnast innan stjórnsýslu í náttúru- og fornleifavernd.  Í hópnum sátu tveir fulltrúar frá hverju landi, annar tengdur náttúruvernd en hinn fornleifavernd.  Fyrir Íslands hönd sátu Ingvar Sigurðsson jarðfræðingur og Kristinn Magnússon fornleifafræðingur í hópnum.  Joel Berglund og Tom Christensen koma frá Grænlandi og Winfried Dallmann og Åsmund Sæther frá Svalbarða.  Åsmund Sæther var verkefnisstjóri.  Kirsti Høgvard sem starfaði á Svalbarða var ritari samstarfshópsins. Árið 2005 kom út skýrsla á vegum norrænu ráðherranefndarinnar þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum samstarfshópsins: TemaNord 2005:541.  Vernekriterier for geologiske elementer og kulturminner i Arktis.