Dagskrá menningararfsársins


Menningararfsár Evrópu 2018Dagskrá menningararfsársins er fjölbreytt en þeir þræðir sem tengja viðburðina saman eru annars vegar strandmenning og hins vegar tenging við Evrópu og/eða evrópskan menningararf. 
Nánari upplýsingar um viðburðina verða birtar þegar þær liggja fyrir auk þess sem fleiri viðburðir munu bætast við eftir því sem líður á árið. 
Þeir sem hafa áhuga á að skrá viðburð á dagatal menningararfsársins geta haft samband á tölvupóstfangið asta@minjastofnun.is

Nánari upplýsingar um menningararfsárið má finna hér.Dagskrá:


20. janúar - opnun sýningarinnar Fornar verstöðvar eftir Karl Jeppesen, Þjóðminjasafn Íslands

Karl Jeppesen hefur ljósmyndað fornar verstöðvar um allt land. Á Veggnum er sýnt úrval þessara mynda. Ástand verstöðvanna er misjafnt. Víða sjást minjarnar glögglega en á öðrum stöðum eru þær horfnar af yfirborði jarðar.

Um sýninguna á vef Þjóðminjasafns Íslands. 2. febrúar - Korriró og Dillidó - þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar, Listasafn Íslands

Ævintýrin gerast enn! Myndheimur íslenskra þjóðsagna og ævintýra sem Ásgrímur Jónsson skapaði með verkum sínum er sannkallaður töfraheimur. Álfar, tröll og draugar, sem lifað höfðu með óljósum hætti í hugskoti þjóðarinnar í rökkri baðstofunnar, tóku á sig skýra mynd í verkum Ásgríms, en hann sýndi slík verk í fyrsta sinn á Íslandi árið 1905.
Þjóðsagnamyndir Ásgríms fengu góðan hljómgrunn og í blaðaskrifum um sýninguna má lesa að menn fagna því að í fyrsta sinn hafi íslenskur listmálari tekist á við að túlka þjóðsögurnar. Mikil sátt virðist hafa ríkt um útlit álfa og trölla í meðförum Ásgríms, svo ætla má að listamanninum hafi tekist að fanga þá mynd sem landsmenn höfðu skapað í huga sér af þessum fyrirbærum.
Sýningin Korriró og dillidó er kærkomið tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að kynnast þeim einstaka ævintýraheimi skrautbúinna álfa og ógnvekjandi trölla sem Ásgrímur Jónsson túlkaði af mikilli einlægni og ástríðu. Áhersla er lögð á að virkja ímyndunarafl gesta og gefa þeim kost á að njóta þessa menningararfs sem um margt getur varpað ljósi á ótta, drauma og þrár genginna kynslóða og sambúð þeirra við ógnvekjandi náttúru landsins.
Í safneign Listasafns Íslands eru rúmlega 1.000 verk sem tengjast efni þjóðsagna og ævintýra og í teiknibókum Ásgríms Jónssonar eru yfir 2.000 teikningar sem að stórum hluta sækja myndefni í þennan sagnabrunn. Á sýningunni má sjá fjölmörg lykilverk úr því fjölbreytta safni þjóðsagnamynda sem Ásgrímur Jónsson lét eftir sig, bæði olíu- og vatnslitamálverk auk fjölmargra teikninga, þ. á m. túlkun á sögunum Átján barna faðir í álfheimum, Una álfkona, Tungustapi, Nátttröllið, Gissur á botnum, Búkolla, Mjaðveig Mánadóttir, Sagan af Hringi kóngssyni, Surtla í Blálandseyjum, Djákninn á Myrká og „Horfðu í glóðarauga mitt, Gunna“

Sýningin opnar 2. febrúar og stendur til 29. apríl 2018.


Um sýninguna á vef Listasafns Íslands.


15. mars - Dagur forvörslunnar, Borgarsögusafn. 

Í tilefni menningararfsárs Evrópu 2018 hefur Félag norrænna forvarða tekið frá sameiginlegan dag til að vekja athygli á forvörslu og varðveislu á Norðurlöndunum, undir heitinu: Dagur forvörslunnar -15 mars.

Þeir forverðir sem eru starfandi á söfnum hafa verið beðnir um að vekja athygli á faginu og ætlar Þjóðminjasafnið að kynna seinna bindi handbókar um varðveislu safnkosts. Í Þjóðarbókhlöðunni verður forvörðurinn þar með erindi fyrir starfsfólk.

Á Borgarsögusafni er margt í gangi er viðkemur forvörslu og varðveislu safnkosts, við höfum fengið Þórdísi textílforvörð til að forverja gripi fyrir nýju grunnsýninguna, hún hefur líka gert við skautbúninginn sem fjallkonan skartar á 17. júní. Það stefnir í að skemmur safnsins verði gerðar brunaheldar á næstunni auk þess að fá nýtt hillukerfi. Þetta er verkefni sem mun líklega taka okkur þrjú ár. Það hafa farið fram myglumælingar í safnhúsunum á Árbæjarsafni og verið er að vinna úr þeim niðurstöðum. Stefnt er að því að hreinsa og forverja rústina á Landnámssýningunni á þessu ári. Svo er margt annað í gangi sem ekki gefst tími að nefna!

Hér kemur smá fróðleikur um forvörslu í heimahúsum sem hefur birst á facebook síðu safnsins:

Ef þú átt viðkvæman grip sem þér þykir mjög vænt um, hefur kannski erft, og vilt auðvitað eiga sem lengst, þá þarf að huga að ýmsu. Ef þú vilt til að mynda hafa gripinn uppi við skaltu fyrst og fremst hugsa um að verja hann gegn sólarljósi og gæta þess að hann rykist ekki mikið. Besta leiðin til að þurrka af gripnum er að nota mjúkan, þurran bursta eða pensil til að fjarlægja rykið; og síðan gæta þess svo að hann sé mestan part dagsins í skugga. Það er, snúi frá sólu.


16. mars - Leikum okkur með menningararfinn - Námsstefna um leikjavæðingu náttúru- og menningararfs, Gunnarsstofnun, Locatify, Gerðuberg, Minjastofnun Íslands, Háskóli Íslands, Samtök tölvuleikjaframleiðenda o.fl. 

Fer fram í Borgarbókasafni | Menningarhúsi Gerðubergi hinn 16. mars 2018, kl. 9.30-16.00.

Ekkert þátttökugjald en skráning og dagskrá hér

  • Fyrir hádegi verða fluttir fyrirlestrar sem veita innsýn í þá möguleika sem eru til staðar.
  • Eftir hádegi verða haldnar vinnustofur og kynningar þar sem þátttakendum gefst færi á að kynna sér betur ákveðnar aðferðir, tækni eða verkefni.
  • Síðdegis verða umræðuhópar um framtíðarsýn og stefnu og hvernig hægt er að vinna saman að nýjungum og framförum á þessu sviði.
  • Í lokin verða pallborðsumræður og samantekt.

Þar sem námsstefnan er hluti af CINE-verkefninu sem nýtur styrks úr Norðurslóðaáætlun ESB fer hún að mestu fram á ensku.

Aðalfyrirlesari námsstefnunnar er Ed Rodley, stjórnandi á sviði miðlunar við Peabody Essex safnið í Bandaríkjunum, en hann vann áður við sýningarstjórn á Tæknisafninu í Boston þar sem hann kom m.a. að hönnun sýninga um Leonardo da Vinci og Star Wars.

Fjöldi þátttakenda á sýningunni er takmarkaður svo áhugasamir eru hvattir til að skrá sig hið fyrsta.

Hér má finna viðburð námsstefnunnar á Facebook.

Hér má finna upplýsingaspjald um námsstefnuna (PDF).

26. mars - Fjörugróður og rekabóndinn

Mánudaginn 26. mars kl. 19 verða tveir fyrirlestrar á Byggðasafni Dalamanna tengdir strandmenningu í tilefni menningararfsárs Evrópu 2018. Hafdís Sturlaugsdóttir landnýtingarráðunautur hjá Náttúrustofu Vestfjarða mun fjalla um fjörugróður og nýtingu hans og Matthías Sævar Lýðsson bóndi í Húsavík á Ströndum segir frá lífi rekabóndans. Allir áhugasamir eru velkomnir, enginn aðgangseyrir.

Hér má finna viðburðinn á Facebook

2. apríl - Kollubóndinn og Akureyjar

Mánudaginn 2. apríl (annan í páskum) kl. 16 verða tveir fyrirlestrar á Byggðasafni Dalamanna   tengdir strandmenningu í tilefni menningararfsárs Evrópu 2018. Halla Sigríður Steinólfsdóttir kollubóndi í Akureyjum mun segja frá lífi kollubóndans og Valdís Einarsdóttir safnvörður segir frá búskap og lífinu í Akureyjum fyrr á tímum. Allir áhugasamir eru velkomnir, enginn aðgangseyrir.

Hér má finna viðburðinn á Facebook

4. apríl kl. 13.30 - Undirritun samnings Hollvinafélags Húna II og Akureyrarbæjar um borð í Húna II við Torfunesbryggju, Akureyri

Samningurinn varðar árlegt framlag til verkefna og viðhalds Húna II sem er 130 tonna eikarbátur, smíðaður á Akureyri árið 1963. Húni II er eini báturinn sem er eftir af þeim 11 sem smíðaðir voru hér á landi af sömu stærð, eða yfir 100 brl (brúttórúmlestir). Hann hefur verið notaður m.a. í sögusiglingar og í sumar verða farnar nokkrar slíkar ferðir. Hollvinafélagið mun einnig sigla til Færeyja og þaðan með skipum frá Færeyjum og Noregi til að taka þátt í strandmenningarmótinu á Siglufirði 4-8 júlí 2018.  Samningur þessi er því afar mikilvægur og tryggir varðveislu Húna II um ókomin ár.   

9. apríl - lokadagur fyrir skil verkefna í menningarminjakeppni grunnskólanema , Minjastofnunar Íslands 

Leiðbeiningar fyrir keppnina og frekari upplýsingar má finna hér .
Athugið að skilafrestur hefur verið lengdur til 9. apríl.

12. maí - opnun sýningarinnar Vorboðar - sýning á fuglum í eigu safnsins, Safnasafnið

Safnasafnid

Sýningin Vorboðar er sýning á 345 fuglum í eigu safnsins og eru höfundar þeirra 42 talsins hvaðanæfa af landinu auk 16 erlendra, ókunnra höfundar. Umfjöllunarefni sýningarinnar eru m.a. farfuglar sem tengja Ísland og Evrópu órjúfa böndum með ferðum sínum heim og að heiman. Sýningin verður opnuð kl. 14:00 þann 12. maí og mun hún standa í tvö ár. Verður sýningin opin á auglýstum tíma safnsins. 


Hér má sjá heimasíðu Safnasafnsins.


18. maí -100 ára afmæli Skaftfellings

SkaftfellingurSkaftfellingur 100 ára afmælishátíð, 18.maí kl 17:00 í Skaftfellingsskemmuni á móti Upplýsingamiðstöðinni í Vík.

100 ár eru liðin síðan ,,Vorboðinn“ Skaftfellingur kom til Víkur og af því tilefni verður blásið til hátíðarhalda.  Frábær dagskrá, frásagnir af skipinu og Sigrúnu Jónsdóttur kirkjulistakonu, glæsileg tónlistaratriði, blöðrur fyrir börnin og léttar veitingar.   

Hlökkum til að sjá sem flesta, þá sem hafa þekkt Skaftfelling og þeir sem vilja kynnast honum!

Nánari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðu Kötluseturs og Facebook-síðu Skaftfellings .

26. maí - opnun sýningarinnar Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum, Þjóðminjasafn Íslands

Ki-leitin-ad-klaustrunumKlausturhald á Íslandi hófst með stofnun klausturs í Bæ í Borgarfirði árið 1030. Samtals voru þrettán klaustur stofnuð á fjórtán stöðum á kaþólsku tímaskeiði hérlendis en því síðasta var komið á fót á Skriðuklaustri árið 1493. Klaustrin urðu ásamt biskupsstólunum að umsvifamestu kirkjulegu stofnunum í landinu fram til siðaskipta. Þá var þeim lokað og kaþólsk trú bönnuð með lögum. Klausturhald féll í gleymsku og minjar úr klaustrum týndust. 

Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Í rannsókninni var leitað að hvers kyns vísbendingum um klausturhald í landinu frá 1030–1554. Notaðir voru jarðsjármælar til að kíkja undir svörðinn og könnunarskurðir grafnir þar sem vísbendingar sáust. Leitað var að klausturgripum í söfnum og kirkjum og að klausturplöntum, rústum og örnefnum úti á vettvangi. Heimildir voru lesnar, jafnt fornbréf sem þjóðsögur, auk þess sem farið var yfir kort og ljósmyndir.

Árið 2017 kom út bókin Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, á vegum Sögufélags og Þjóðminjasafns Íslands. Áður kom út Sagan af klaustrinu á Skriðu árið 2012. Báðar bækurnar voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir hlaut Bókmenntaverðlaun félags bóksala 2017 og Viðurkenningu Hagþenkis 2017. 

Sýningin er liður í hátíðarsýningaröð Þjóðminjasafns Íslands vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018.

Hér má sjá síðu sýningarinnar á vef Þjóðminjasafns Íslands.


2. júní - opnun sýningarinnar Foldarskart eftir Louise Harris, Heimilisiðnaðarsafnið

Liljur-vallarins-1

Laugardaginn 2. júní kl. 14:00 opnar ný sérsýning textíllistamannsins Louise Harris í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi. Ber sýningin heitið Foldarskart  og mun hún tengja saman íslenskan menningararf og evrópskan myndlistararf. Louise hefur áform um að tengja saman gamalt íslenskt hráefni á borð við ull/þel og innsetningarhefð nútíma myndlistar. Þetta er ný og athyglisverð tilraun og mun þessi sýning draga fram, fyrir hinn almenna sýningargest, nýja fleti á tengslum menningararfs og listsköpunar í nútímanum og undirstrikar að söfn eru ekki geymslustaður heldur skapandi og lifandi rými. 

Hér má sjá heimasíðu Heimilisiðnaðarsafnsins. 

Liljur-vallarins-2


2. júní - Sjósókn fyrri ára, Iðnaðarsafnið Akureyri

Sýndar verða netaviðgerðir og hnýting. Gestir geta fengið að spreyta sig á gömlu handbragði með aðstoð reynslubolta á þessu sviði, við óm af gömlu góðu sjómannalögunum.

Sjosokn-fyrri-ara

Frítt á safnið fyrir allt það fólk sem er tengt, eða þekkir einhvern sem tengist, sjónum eða sjónmennsku á einn eða annan hátt (þ.e. frítt fyrir alla).

Á Iðnaðarsafninu eru til varðveislu fjöldi skipslíkana, siglingatækja og muna úr skipum sem hægt verður að skoða þennan dag.

Opið 10-17 og kaffisopi í boði safnsins.


Hér má sjá heimasíðu Iðnaðarsafnsins.


2. júní - opnun smáforrits um Reykjavíkurhöfn, Minjastofnun Íslands, Faxaflóahafnir og Borgarsögusafn 

Fullveldi100_adalutgafa

Laugardaginn 2. júní kl. 14, á Hátíð hafsins, verður opnað nýtt smáforrit um sögu hafnarsvæðisins í Reykjavík sem kallast Minjaslóð. Við opnunina ávarpa Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna og Guðbrandur Benediktsson safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur viðstadda og að því loknu mun Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opna smáforritið formlega. Opnunin fer fram á stóra sviðinu við Grandagarð.

Launch-image-copy

Minjaslóð er smáforrit, fyrir Apple og Android, sem inniheldur bæði Minjaleit og Minjaslóð. Minjaleit er fjársjóðsleit fyrir yngri kynslóðina þar sem unnið er með sögu hafnarsvæðisins í Reykjavík. Minjaslóð inniheldur fimmtán upplýsingapunkta á hafnarsvæðinu í Reykjavík þar sem hægt er að fræðast um höfnina, sögu hennar og hlutverk, s.s. í tengslum við fullveldi og aukið sjálfstæði Íslands.

Að smáforritinu standa Faxaflóahafnir, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Minjastofnun Íslands í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands og Menningararfsári Evrópu 2018.

Hér má sjá heimasíðu Faxaflóahafna.

Hér má sjá heimasíðu Borgarsögusafns.

9.-10. júní - sýning um uppgröft á hollenska kaupskipinu Melckmeyt, Sjóminjasafnið í Reykjavík, Borgarsögusafn

MelckmeytMelckmeyt 1659 - Mjaltastúlkan  / Milkmaid
Fornleifarannsókn neðansjávar / Underwater Archaeological Survey

Árið 1659 sökk hollenskt kaupskip í ofsafengnum stormi við Flatey á Breiðafirði. Meira en 300 árum síðar, árið 1992, fundu kafarar flak skipsins. Árið eftir var í fyrsta sinn framkvæmd víðtæk rannsókn á fornminjum neðansjávar við Ísland. Enn stærri hluti flaksins var svo grafinn upp árið 2016.

Á þessari sýningu fá gestir innsýn í rannsóknaraðferðir fornleifafræðinnar og fjallað verður um valda þætti úr sögu skipsins, áhafnar og verslunar á 17. öld. Einnig getur að líta nokkra þeirra gripa sem fundust við rannsóknina.

In 1659, a Dutch merchant ship sank near Flatey off the west coast of Iceland, during a violent storm. Two divers rediscovered the wreck in 1992 and the following year an underwater archaeological survey was carried out. In 2016, a team of marine archaeologists returned to the wreck to continue the survey.  In this exhibition visitors will gain a number of fascinating insights about trade in Iceland during the 17th century, the Melckmeyt and its crew and the various methodologies used by marine archaeologists. On display are some of the artifacts recovered from the wreck.

Hér má sjá heimasíðu Sjóminjasafnsins í Reykjavík .


4.-8. júlí - Norræn strandmenningarhátíð og árleg Þjóðlagahátíð, Síldarminjasafnið Siglufirði, Vitafélagið, Norrænu strandmenningarfélögin, Þjóðlagahátíð og sveitarfélagið Fjallabyggð

Sildarminjasafn,-ljosmyndari-Bjorn-Valdimarsson

Dagana 4. – 8. júlí 2018 fer fram Norræn Strandmenningarhátíð á Siglufirði. Um er að ræða sjöundu strandmenningarhátíðina en sú fyrsta fór fram á Húsavík árið 2011. Síðan þá hefur hátíðin verið haldin í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Álandseyjum og Færeyjum.

Búist er við fjölda þátttakenda frá Norðurlöndunum sem og Íslandi. Færeyingar hafa boðað komu sína á kútter Jóhönnu auk þess sem þeir hyggjast koma með grindabáta, í þeim tilgangi að sigla þeim og kynna fyrir hátíðargestum. Grænlendingar og Finnar áætla að senda bæði söng- og leiklistarfólk til þátttöku. Norðmenn áforma að sigla ólíkum skipum á hátíðina auk þess sem tónlistar- og handverksfólk hefur boðað komu sína. Unnið er að samstarfi við Svía um uppsetningu sögusýningar um síldveiðar þeirra við Íslandsstrendur og sér í lagi við Siglufjörð. Þá er á dagskrá að kynna ólíkar útfærslur á síldarréttum og bjóða hátíðargestum að bragða á ýmisskonar síld. Vonir eru bundnar við að fjöldi báta og skipa komi sjóleiðis til Siglufjarðar þessa daga, bæði frá Norðurlöndunum og víðs vegar frá Íslandi. Siglfirskar síldarstúlkur munu salta síld á planinu við Róaldsbrakka og stranda þannig vörð um gömlu verkþekkinguna. Þátttaka Íslendinga verður fjölbreytt og má nefna að siglingaklúbbar landsins ætla að halda siglingamót á staðnum þessa daga,  eldsmiðir munu leika listir sínar, handverksfólk vinnur með ull, roð, æðardún, riðar net og fleira, bátasmiðir verða við vinnu og tónlistarfólk kætir lund með söng- og hljóðfæraleik.

Árið 2018 verður sannkallað afmælis- og hátíðarár norður á Siglufirði, en bærinn mun fagna 100 ára kaupstaðarmæli og 200 ára afmæli verslunarréttinda – auk þess sem hátíðin hefur verið valin sem hluti af afmælisdagskrá 100 ára fullveldis Íslands. Strandmenningarhátíðin fer fram í samstarfi Vitafélagsins, Norrænu strandmenningarfélaganna, Síldarminjasafns Íslands, Þjóðlagahátíðar og sveitarfélagsins Fjallabyggðar. Árleg Þjóðlagahátíð fer fram samtímis Strandmenningarhátíðinni en þemað að þessu sinni verður Tónlist við haf og strönd – það er því óhætt að segja að um sannkallaða stórhátíð verði að ræða. 

Dagskrá strandmenningarhátíðarinnar má nálgast hér .

Hér má sjá heimasíðu Síldarminjasafnsins. 
Hér má sjá upplýsingar um hátíðina á heimasíðu Fjallabyggðar. 
Hér má sjá upplýsingar um hátíðina á heimasíðu Vitafélagsins. 

11. júlí - Sögurölt í Kumbaravog

Sogurolt-i-kumbaravog

Miðvikudaginn 11. júlí kl. 19 verður þriðja sögurölt Byggðasafns Dalamanna og Sauðfjárseturs á Ströndum í sumar. Upphafsstaður er við Klofning. Farið verður upp á Klofning að hringsjá sem þar er og notið útsýnisins. Spjallað verður m.a. um búsetu, strauma, siglingaleiðir og annað er kemur upp í hugann varðandi eyjarnar fyrir mynni Hvammsfjarðar.

Þá verður rölt niður í Kumbaravog í landi Mela. Munnmæli eru um verslun Íra þar á fimmtándu öld. Kaupfélag Skarðsstrendinga hafði þar í upphafi aðsetur sitt. Þar er og húsmennskubýlið Grænanes. Síðan má ekki gleyma fuglalífi, útsýni og ægifögru sólarlagi þegar þannig stendur á.

Misgóðir malarvegir eru fyrir strandir (Skarðsströnd og Fellsströnd), en hringurinn í allt er um 90 km langur. Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá eru menn komnir að Klofningi þegar keyrt er gegnum klofna kletta. Röltið ætti ekki að vera lengra en 2 km með öllum útúrdúrum, upp og niður, niður og upp.

Með sögum, spjalli og rölti tekur þetta allt að tveimur tímum, en svo er líka hægt að láta sér Klofninginn nægja og halda áfram ferð fyrir strandir. 

Hér má sjá upplýsingar um gönguna á heimasíðu Dalabyggðar.


9. ágúst - Sögurölt um Fagradalsfjöru, Byggðasafn Dalamanna, Sauðfjársetur á Ströndum, Náttúrubarnaskólinn

Fimmtudagskvöldið 9. ágúst kl. 19:30 verður rölt um Fagradalsfjöru á Skarðsströnd og í Saurbæ. Þar verða sagðar sögur og lífið í fjörunni skoðað með dyggri aðstoð bænda í dalnum fagra.

Í Fagradalsfjöru er margt að skoða, söl, skeljar, æðarfugl, naust, þang, máfa, krækling, sauðfé, kuml, marhálm, skarfa, seli, dys, hrúðurkarla, haferni, orrustuvelli og svo ótalmargt annað. Sannkallaður ævintýraheimur og aldrei að vita hvað finnst næst.

Keyrt er í átt að fjörunni niður afleggjara neðan við bæinn Foss, meðfram Fagradalsá þar til komið er að litlu húsi á barðinu. Gengið verður niður sneiðinga í fjöruna og inn að naustum. Þá er leiðin lögð á haf út eftir því sem fært er og fjaran stækkar. Farið verður yfir Fagradalsá á grynningum og gengnar út fjörur og síðan til baka þegar menn hafa fengið nóg.

Þar sem gengið verður á haf út eru gúmmístígvél ráðlagður fótabúnaður og skynsamlegt að grípa göngustafinn með, því það getur orðið hált í fjörunni.

Sögurölt um Dali og Strandir er samvinnuverkefni Byggðasafns Dalamanna, Sauðfjárseturs á Ströndum og Náttúrubarnaskólans og hluti af dagskrá tengdri menningararfsári Evrópu 2018.

Viðburðurinn á Facebook .

9. ágúst - Vestfirski fornminjadagurinn, Fornminjafélag Súgandafjarðar

Vestfirski-fornminjadagurinnVestfirski minjadagurinn verður haldinn 9. ágúst frá kl. 13:00-17:00 í Grunnskóla Súgandafjarðar á Suðureyri. 

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.


Margrét H. Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur

Hvað eru fornleifarnar í Arnarfirði að segja okkur um landnámsöldina?

Margrét hefur í nokkur ár stundað fornleifarannsóknir á Hrafnseyri og á Auðkúlu. Niðurstöðurnar benda til þess að landnámið hafi verið með öðrum hætti en margir halda. Meðal þess sem hefur komið í ljós er að járnvinnsla hefur verið stórfelld og líklega til útflutnings. Á Auðkúlu er verið að grafa upp skála frá landnámsöld. 

Jón Jónsson, þjóðfræðingur

Álagablettir, þjóðtrú og saga

Á fjölmörgum stöðum á Vestfjörðum eru álagablettir, staðir sem bannhelgi hvílir á. Oft má ekki slá grasið á slíkum blettum eða raska þeim með nokkrum hætti. Magnaðar sögur eru svo sagðar um hvernig huldar vættir refsuðu þeim sem brutu gegn bannhelginni. Trú á álagabletti á fornar rætur og svipaðar hugmyndir má t.d. finna í Færeyjum, Skotlandi og Írlandi.

Óskar Leifur Arnarsson, fornleifafræðingur

Minjar Hrafna-Flóka og framkvæmdarannsóknir á sunnanverðum Vestfjörðum

Friðlýstar tóftir eru við bryggjuna á Brjánslæk sem heita Flókatóftir eftir Hrafna-Flóka Vilgerðarsyni sem sagður er hafa fyrstur manna haft vetursetu á Íslandi.  Óskar hefur kynnt sér málið og mun segja frá sínum athugunum ásamt því að fara yfir framkvæmdarannsóknir sem hann hefur unnið á Vestfjörðum. Algengt er að framkvæmdir leiði í ljós fornminjar og þá þarf að tilkynna þær. Sumir gera það ekki af ótta við tafir eða kostnað. Óskar fer yfir þessi mál.

Guðmundur Björgvinsson, sagnamaður

Sögur af verstöðinni á Kálfeyri, einum merkasta minjastað Önfirðinga

Fáar verstöðvar ef nokkrar eru eins vel varðveittar og verstöðin á Kálfeyri í Önundarfirði. Þangað fóru Önfirðingar í verið og reru til fiskjar í nokkrar aldir. Saga þessa fallega staðar er merkileg og hefur farið hljótt og full ástæða er til að heyra og sjá meira af henni. Guðmundur Björgvinsson mun sýna myndir og segja sögur úr verinu eins og honum er einum lagið.

Björk Magnúsdóttir, fornleifafræðingur

Fornleifarannsóknir á býlinu Árbæ. Merkar fornminjar í jörðu á miðju safnasvæðinu.

Margt mjög áhugavert er að koma í ljós varðandi upphaf byggðar í Reykjavík. Áður óþekktir stórir skálar hafa t.d. fundist í miðbænum. En einnig í Árbænum hafa fundist mannvirki með landnámslaginu í. Björk Magnúsdóttir tók þátt í fornleifauppgreftri á Árbæjarsafninu sjálfu og mun segja frá því í máli og myndum. 

Margrét H. Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur

Landnámsskálar og bygging þeirra

Sagt verður frá áformum Fornminjafélagsins um að byggja skála svipaðan þeim sem hafa fundist á Vestfjörðum frá landnámstíma.  Margrét H. Hallmundsdóttir mun segja frá því hvernig þeir skálar voru byggðir og öllu því sem tilheyrði en hún hefur tekið að sér að leiðbeina Fornminjafélagi Súgandafjarðar um byggingu landnámsskála á Suðureyri. Hvalreki fyrir alla áhugamenn. 

Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar

Frumsýning á heimildarmynd um byggingu verbúðar í Súgandafirði

Sumarið 2016 og 2017 byggðu félagsmenn í Fornminjafélagi Súgandafjarðar verbúð líka þeim sem voru á Vestfjörðum fyrr á öldum. Verbúðin var byggð til að heiðra útvegssögu Íslands og þá tíð þegar forfeðurnir og formæðurnar fóru í verið.  Bygging verbúðarinnar var mynduð og heimildarmynd gerð um framtakið sem fjölmargir komu að. 

17.-18. ágúst - Málþing um fornleifar Stranda: Sandvík og landnám Íslands, Fornleifastofnun Íslands ses., Bergsveinn Birgisson rithöfundur, Háskólasafnið í Bergen og Háskólinn í Bergen

SandvikLaugardaginn 18. ágúst verður haldið málþing um fornleifar Stranda sem ber yfirskriftina Sandvík og landnám Íslands. Málþingið verður haldið í Hveravík í Kaldrananeshreppi og hefst dagskrá klukkan 11. Mikill fjöldi erinda verður haldinn og koma fyrirlesarar úr ranni ólíkra fræðigreina.

Daginn fyrir málþingið, föstudaginn 17. ágúst verður farið í fornleifagöngu um landnámsbæinn í Sandvík, Bæ á Ströndum, kl. 17-19. Þar munu fornleifafræðngar segja frá niðurstöðum rannsókna á staðnum og fólki gefst kostur á að spyrja þá spjörunum úr.

Dagskrá málþingsing og frekari upplýsingar má nálgast hér.


Hér má sjá heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands ses.


1. október - Loftslagsbreytingar, forvörsluaðferðir og minjavarsla í Alaska, á Íslandi og í Noregi, Minjastofnun Íslands, Historic Environment Scotland, Riksantikvaren, NIKU - Norsk institutt for kulturminneforskning

Anh-logoMánudaginn 1. október verða haldnir í Hannesarholti fyrirlestrar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á minjar og minjastaði. Viðburðurinn ber yfirskriftina „Loftlagsbreytingar, forvörsluaðferðir og minjavarsla í Alaska, á Íslandi og í Noregi“ og munu innlendir og erlendir sérfræðingar fjalla þar um ólík viðfangsefni er kemur að loftslagsbreytingum og menningarminjum.

Dagskrá viðburðarins og frekari upplýsingar um fyrirlestrana má finna hér.

Viðburðurinn er skipulagður af Minjastofnun Íslands sem hluti af verkefninu Aðlögun menningararfs á norðurslóðum (e.  Adapt Northern Heritage eða ANH), í samstarfi við Historic Environment Scotland, Riksantikvaren í Noregi og NIKU - Norsk institutt for kulturminneforskning. Viðburðurinn er hluti af dagskrá Menningararfsárs Evrópu 2018. 

6. október - Menningarminjadagarnir, Strandminjar, Minjastofnun Íslands

Meginviðburður menningarminjadaganna 2018 verður haldinn í gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Malarrifi á Snæfellsnesi. Nefnist viðburðurinn "Menningarminjar á Snæfellsnesi" og verða þar kynnt tvö evrópuverkefni sem unnið er að í tengslum við menningarminjar á Snæfellsnesi sem og niðurstöður nýlegra fornleifarannsókna í Þjóðgarðinum. Að því loknu verður farið í stutta gönguferð með leiðsögn ef veður leyfir.

Dagskráin hefst kl. 13 og er áætlað að henni ljúki ekki seinna en kl. 16.

Viðburðurinn er hluti af dagskrá Evrópska menningarminjaársins 2018 og er haldinn af Minjastofnun Íslands í samstarfi við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Dagskrá viðburðarins má nálgast hér.


Seinna í október verða farnar gönguferðir með ferðafélögum á nokkrum stöðum á landinu þar sem sjónum verður m.a. beint að strandminjum. Verða þær göngur á dagskrá menningarminjadaganna og Menningararfsárs Evrópu.

12.-13. október - Ráðstefna um Kötlugosið 1918, Katla Geopark

KotluradstefnaRáðstefna um Kötlugosið 1918, Vík í Mýrdal, 12.-13.október 2018

Kötlugosið 1918 og afleiðingar þess á náttúru og samfélag þess tíma.

Hverjar myndu afleiðingar Kötlugos verða á samfélag dagsins í dag?

Þann 12 . október í ár eru 100 ár síðan eldgos hófst í megineldstöðinni Kötlu í Mýrdalsjökli.  Kötlugosið 1918 var eitt af stærri eldgosum í Kötlu.  Gosinu fylgdu gríðarlega mikil jökulhlaup og  mikið öskufall á stóru landssvæði umhverfis eldstöðina.

Í tilefni þess að öld er liðin frá gosinu, verður þess minnst með veglegri ráðstefnu í Vík í Mýrdal dagana 12. - 13. október.  Til umfjöllunar verður megineldstöðin Katla og hennar áhrif á náttúru og samfélag á Suðurlandi. Ráðstefnan hefst þann 12. október kl. 9:00 og mun samanstanda af fjölbreyttum erindum er öll tengjast Kötlu. Meðal fyrirlesara verða flestir helstu sérfræðingar landsins á sviði náttúruvísinda sem best þekkja til og hafa rannsakað Kötlu og áhrif hennar á landslag, náttúrufar og mannlíf á svæðinu, m.a. frá Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, Almannavörnum, Vegagerðinni, Landsbjörg o.fl.  Jafnframt verður flutt erindi þar sem fléttað verður inn erindið í frásagnir þeirra sem upplifðu gosið 1918.  Aðferðir jarðfræðinga, veðurfræðinga og jöklafræðinga við vöktun eldstöðvarinnar verða útskýrðar og til sýnis verða þau tæki og tól sem Veðurstofa Íslands notar í þessu sambandi.  Þann 13. október verður svo farið í stutta vettvangsferð um svæðið þar sem ummerki eftir gosið verða skoðuð.


Hér má sjá heimasíðu Kötlu Geopark. 

1. nóvember - 90 ára afmæli Hvítárbrúarinnar við Ferjukot, sýning, Safnahús Borgarfjarðar

HvitarbruinOpnun sýningar um byggingu Hvítárbrúarinnar í Borgarfirði árið 1928. Sýningarstjóri er Helgi Bjarnason, blaðamaður. Um er að ræða veggspjaldasýningu með ljósmyndum og fróðleik um ýmislegt tengt brúnni. Hvítárbrúin var á sínum tíma mikil samgöngubót og þáttur í breyttu ferðamunstri landans, þ.e. breytingunni sem átti sér stað þegar ferðamáti fólk færðist að mestu af sjó á land. Hvítárbrúin opnaði á sínum tíma dyr innan héraðs og hafði mikil áhrif á atvinnu- og félagslíf héraðsbúa.

Sýningaropnunin verður kl. 19.30 fimmtudagskvöldið 1. nóvember, á vígsluafmæli brúarinnar, og hefst dagskrá með ávörpum sýningarstjóra, Helga Bjarnasonar, og fulltrúa vegagerðarinnar. Að ávörpum loknum býðst gestum að skoða sýninguna og þiggja veitingar. Sýningin mun standa í um fjóra mánuði.


Hér má sjá heimasíðu Safnahúss Borgarfjarðar. 


24. nóvember - opnun sýningarinnar Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna, Þjóðminjasafn Íslands

Ki-med-augum-biskups-og-safnmanna-2Kirkjur og kirkjugripir urðu þremur mönnum rannsóknarefni á 20. öld og allir skráðu þeir rannsóknir sínar með myndrænum hætti. Eitt af fyrstu rannsóknarefnum Matthíasar Þórðarsonar í starfi þjóðminjavarðar voru kirkjugripir í öllum kirkjum landsins. Hann gerði nákvæmar úttektir og skrár yfir kirkjugripi hverrar kirkju, greindi aldur þeirra og listrænt gildi auk þess sem hann myndaði stundum kirkjugripina. Í biskupstíð sinni á fyrri hluta 20. aldar heimsótti Jón Helgason flestar kirkjur landsins. Í ferðunum hafði hann með sér teikniblokk og teiknaði einstaka kirkjur, kirkjustaði og stundum kirkjurnar í umhverfi sínu í þorpum og bæjum. Sumar myndanna voru vatnslitaðar. Á ferðum sínum um landið heimsótti Þór Magnússon þjóðminjavörður kirkjur og fór yfir skrár fyrirrennara sinna yfir kirkjugripi og jók við þær. Hann tók myndir bæði af kirkjum og kirkjugripum. 

Úrval mynda þessara þriggja manna veita innsýn í íslenskar kirkjubyggingar og þann menningararf sem þær hafa að geyma.

Hátíðarsýningin er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018 í Þjóðminjasafni Íslands.


Um sýninguna á heimasíðu Þjóðminjasafns Íslands. 


24. nóvember - opnun sýningarinnar Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur, Þjóðminjasafn Íslands

Ki-skrudi-og-ahold.-straumar-og-stefnurEftir nærri tveggja áratuga vinnu við rannsóknir og útgáfu bókaflokksins Kirkjur Íslands, efnir Þjóðminjasafn Íslands til sýningarinnar Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist yfir kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfuna.

Á sýningunni eru sýndir gripir úr kirkjum landsins og úr safneigninni sem ekki hafa komið fyrir almenningssjónir. Gripir munu kallast á við það sem enn er í kirkjunum auk þess sem skírskotað er til gripa á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, þar sem helstu gersemar safnsins eru. Gert er ráð fyrir að fá að láni íslenska kirkjugripi sem færðir voru til Danmerkur á 19. öld og eru varðveittir í Þjóðminjasafni Dana.

Kirkjur á Íslandi voru öldum saman ígildi listasafna samtímans. Kirkjur létu vinna fyrir sig listaverk eða keyptu þau frá erlendum framleiðendum og einnig innlendum. Verslunarsaga landsins endurspeglast í varðveittum kirkjugripum. Aldur gripanna er breytilegur og þeir endurspegla smekk og fagurfræði hvers tíma. Fjölbreytni, listrænt og menningarsögulegt mikilvægi þeirra hefur orðið ljósara eftir því sem bókum í flokknum hefur fjölgað. Mikið er um vandaða heimagerða gripi sem veita innsýn í alþýðulist fyrri tíma. 

Á sýningunni í Bogasal er fjallað um fjölbreytni og stíl kirkjugripa og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í alþjóðlegu samhengi listasögunnar. Sýningin opnar fyrir framtíðarrannsóknir í listasögu á Íslandi.

Hátíðarsýningin er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands og Evrópska menningararfsársins 2018 í Þjóðminjasafni Íslands.

Um sýninguna á heimasíðu Þjóðminjasafns Íslands