Friðuð hús og mannvirki

Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012 er gerður greinarmunur á friðlýstum húsum og mannvirkjum og þeim sem friðuð eru. Við gildistöku laganna 1. janúar 2013 voru öll hús og mannvirki í landinu sem eru 100 ára eða eldri friðuð, því nú er miðað við aldur húss, en ekki ákveðið ártal.  Ekki er vitað með vissu hversu mörg þessi hús eru en gera má ráð fyrir að þau skipti þúsunumd og auk þess bætist fjöldi húsa við á hverju ári. Ekki segir það byggingarár sem fram kemur í Fasteignaskrá alla söguna því mörg hús sem ekki eru í notkun eru ekki skráð og í mörgum tilvikum er árið sem byggt var við húsið eða því breytt á einhvern hátt skráð sem byggingarár. Auk þess er skráð byggingarár húsa sem hafa verið flutt um set oft á reiki. Þá liggja í mörgum tilvikum ekki fyrir upplýsingar um byggingarár húsa og þarf þá að fara fram byggingarsöguleg rannsókn á húsinu.

Minjastofnun Íslands hefur það lögbundna hlutverk að halda heildarskrár yfir friðuð og friðlýst hús og gera þær aðgengilegar almenningi. Hafin er vinna við skráningu allra friðaðra húsa í landinu en slík vinna er tímafrek og vandasöm.

Framkvæmdir við friðað hús eða mannvirki

Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Miðað er við að leitað sé álits stofnunarinnar áður en ráðist er í allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir og sömu gögn send Minjastofnun til umsagnar og senda þarf til byggingarfulltrúa.

Viðhald friðaðs húss eða mannvirkis

Halda má við friðuðum húsum, mannvirkjum og mála þau án sérstaks samráðs við Minjastofnun, sé ekki um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir að ræða.