Fara í efni

Skráning fornleifa

Í lögum um menningarminjar nr. 80/2012, 21. grein, kemur skýrt fram að enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar má spilla, granda, breyta, hylja, laga eða aflaga né flytja úr stað fornleifar nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Forsenda þess að geta verndað fornleifar og koma í veg fyrir að framkvæmdaaðilar brjóti óafvitandi lög með því að skemma fornleifar er að hafa vitneskju um tilvist og staðsetningu fornleifanna. Því var einnig sett í lög ákvæði þess efnis að skráning “fornleifa, húsa og mannvirkja skal fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi“. Enn fremur segir að sá sem „ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skal standa straum af kostnaði við skráninguna“.

Tilgangur fornleifaskráningar er annars vegar að tryggja verndun menningararfsins og hins vegar að auðvelda bæði sveitarfélögum og Minjastofnun að móta stefnu í minjavörslu. Í sumum tilvikum fara framkvæmdaaðilar fram á að raska fornleifum vegna framkvæmda. Það er erfitt að taka afstöðu í slíkum málum þegar einungis brot af landinu hefur verið skráð. Auk þess ber sveitarfélögum að móta stefnu í umhverfismálum í skipulagsvinnu sinni og menningarminjar eru vissulega hluti af umhverfinu. Sveitarfélagið getur ekki mótað stefnu um minjar sem fáir eða engir vita að eru til, í hvaða ástandi þær eru, né hverrar tegundar. Sveitarfélagið þarf að hafa heildarmynd af menningarminjum á sínu svæði og það verður ekki gert án fornleifaskráningar.

Minjastofnun hefur gefið út reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi. Reglurnar má finna hér.

Landupplýsingakerfi Minjastofnunar Íslands

Minjastofnun hefur á síðustu misserum byggt upp landfræðilegan gagnagrunn fyrir gögn stofnunarinnar. Í dag er að finna upplýsingar um friðaðar og friðlýstar fornleifar, fornleifarannsóknir, fornleifaskráningar, hús og mannvirki, húsakannanir og – skráningar, friðlýst minjasvæði og verndarsvæði í byggð. Öll þessi gögn eru aðgengileg á vefsjá stofnunarinnar, bæði til skoðunar og niðurhals, sjá vefsjá Minjastofnunar Íslands. Enn fremur hefur stofnunin, í samstarfi við Landmælingar Íslands, gert gögnin aðgengileg í gegnum WFS og WMS tengingar en með þeim er hægt að vinna með gögnin í helstu landupplýsinga forritum.

Stöðlun fornleifaskráningar

Minjastofnun Íslands hefur sett fram staðla fyrir skráningu fornleifa en í þeim má m.a. finna stöðlun á heitum hvað varðar tegund, hlutverk og ástand fornleifa. Er tilgangur stöðlunarinnar helst af tvennum toga, annars vegar til að auðvelda samræmingu gagna og hins vegar til að hægt sé að setja fram kröfu um lágmarksgæði gagna og skráningar. Framkvæmdaraðilum og skráningaraðilum ætti því að vera ljóst hvaða kröfur Minjastofnun Íslands gerir til fornleifaskráningar svo hún geti talist fullnægjandi og hægt sé að byggja stjórnsýsluákvarðanir stofnunarinnar á henni. Staðlar þessa efnis hafa verið aðgengilegir um árabil og notkun þeirra hefur verið lögbundin frá 1. janúar 2013.

Hægt er að nálgast skjöl er varða skráningarstaðla og skilaferli fornleifaskráningar hér fyrir neðan.

Fornleifaskráning á Reykjanesi

Skjöl til niðurhals

Sniðmát fyrir fornleifaskrá (2013)

Byggt á gömlu stöðlum frá 2013

Sniðmát fyrir fornleifaskrá (2023)

Byggt á nýjum stöðlum sem eru væntanlegir, í vinnslu (síðast uppfært 31/10/23)

Stöðlun upplýsinga

En það er ekki nóg að staðla skráninguna/rannsóknina sjálfa heldur þarf einnig að tryggja að þessi gögn geti tengst öðrum upplýsingakerfum en það er gert með notkun svokallaðra lýsigagna (metadata). Í því samhengi tóku Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðun (forverar Minjastofnunar Íslands) þátt í Evrópuverkefninu CARARE (www.carare.eu) og Minjastofnun tók þátt í LoCloud (www.pro.carare.eu/en/projects/locloud), en þau verkefni hafa þann megintilgang að búa til slíka stöðlun og tengja gagnagrunna sem hafa að geyma gögn um menningarminjar saman í vefgáttinni Europeana (www.europeana.eu).