Fara í efni
Til baka í lista

Laugavegur 11

Friðlýst hús

Byggingarár: 1868

Hönnuður: Ókunnur

Friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 7. mars 2011 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun. Friðunin nær til ytra byrðis framhússins við Laugaveg, sem að grunni til á upphaf sitt að rekja til ársins 1868.

 

Laugavegur 11 er næst elsta húsið við Laugaveg og eitt af elstu timburhúsum Reykjavíkur.

Fyrsti eigandi hússins var Símon Alexíusson en árið 1889 var Andrés Bjarnason söðlasmiður orðinn eigandi þess. Árið 1891 var húsið breikkað um 2 metra og árið 1907 var byggð álma norður úr húsinu meðfram Smiðjustíg. Bræðurnir Friðrik og Sturla Jónssynir eignuðust húsið árið 1913 og um 1920 byggðu þeir steinhús vestan við húsið, þar sem veitingastaðurinn Ítalía hefur verið til húsa um árabil.

Í húsinu hafa ýmist verið veitingastaðir eða verslanir. Þar rak Kristín Dahlstedt vinsælt veitingahús á þriðja áratug síðustu aldar og síðar var þar veitingastaðurinn White Star, sem danskur maður að nafni Olsen rak. Þar var dansað og drukkið og hafði staðurinn ekki gott orð á sér, þótti ófínn og sukksamur. Síðar var þar rekið kaffihús sem fjölsótt var af náms- og menntamönnum. Skáld lásu þar úr verkum sínum og hélt Steinn Steinarr uppi vörnum fyrir atómskáldin.

 

Heimildir:

Guðjón Friðriksson (1994). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940. Síðari hluti. Reykjavík: Iðunn.

Hafliði Jónsson (1961). Kristín Dahlstedt veitingakona. Reykjavík: Bókaútgáfan Muninn.

Nikulás Úlfar Másson (2000). Byggingasaga. Vestanvert Skólavörðuholt. Reykjavík: Árbæjarsafn.

Páll Líndal (1987). Reykjavík. Sögustaður við Sund. Reykjavík: Örn og Örlygur hf.