Fara í efni

Friðlýsing Borgarneskirkju

Borgarneskirkja átti 65 ára vígsluafmæli þann 9. maí 2024
Borgarneskirkja átti 65 ára vígsluafmæli þann 9. maí 2024

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, undirritaði friðlýsingu Borgarneskirkju fimmtudaginn 9. maí.

„Þetta er bæði mjög merk bygging, glæsileg bygging og kennileiti og stolt bæjarins og hefur verið það frá upphafi.“ - Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftlagsráðherra.

Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun, segir ástæðu friðlýsingarinnar tvíþætta. Engin friðlýst bygging var í Borgarnesi og Húsafriðunarnefnd hefur lagt áherslu á að friðlýsa verk eftir helstu arkitekta landsins. Kirkjan var teiknuð af Halldóri H. Jónssyni sem ólst upp í Borgarnesi og gaf vinnu sína við hönnun kirkjunnar.

„Það vildi til að það var engin friðlýst bygging eftir Halldór H. Jónsson svo það fór vel á því að velja Borgarneskirkju sem fulltrúa fyrir hans verk.“ - Pétur H. Ármannsson

Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, undirritar friðlýsingarskjalið ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis,- orku- og loftslagráðherra og Magnúsi Guðmundssyni skrifstofustjóra í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.

 

Borgarneskirkja setur mikinn svip á bæinn og sést það á hönnun hennar hvernig gamlar hefðir og nýir straumar mætast.

„Borgarneskirkja er sérstök bygging því hún er tiltölulega hefðbundin bygging, langkirkjubygging, að ytra formi með turni við vesturstafn en innandyra þá er hún í raun mjög nútímaleg og framúrstefnuleg fyrir sinn tíma.“ - Pétur H. Ármannsson

 

Fjöldi fólks mætti á athöfnina

Frekari umföllun má finna á fréttavefum RÚV og MBL.