Fara í efni

Friðuð minningarmörk

Friðuð minningarmörk

Orðið minningarmark er samheiti yfir þau verk í kirkjugörðum sem reist eru til minningar um einstakling sem þar er grafinn. Er þá átt við grafhýsi, legsteina eða varða af ýmsu tagi, krossa úr margvíslegum efnivið, gerði eða girðingar kringum leiði og plötur sem á þau eru fest. Minningarmörk geta einnig verið staðsett utan kirkjugarða.

Heimildagildi minningarmarka er mjög mikið. Þau eru samtímaheimild sem gefa upplýsingar um gildismat þeirra sem þau reisa, listrænan smekk, trúarleg og jafnvel þjóðernisleg viðhorf. Með því að skoða minningarmörk sést hvernig stefnur og straumar í listsköpun tekur breytingum og efniviðurinn í minningarmörkunum, framleiðslustaður þeirra, skreyti og tákn á þeim gefa einnig vís­bend­ing­ar um tísku, erlend menningaráhrif og verslunartengsl. Þá geta þau bætt ýmsu við persónusögu, ættfræði og sögu heilu byggðarlaganna, m.a. efnahags- og verslunar­sögu og gefið upplýsingar sem tengjast heilsufari, slysum og náttúru­ham­förum.

Öll minningarmörk sem eru 100 ára og eldri teljast til fornleifa og njóta friðunar skv. lögum um menningarminjar nr. 80/2012, nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands. Stofnunin hefur umsjón og eftirlit með öllum minningarmörkum.