Fara í efni

Stefnumótun

Stefna Minjastofnunar Íslands 2018-2020

Vinna við mótun stefnu Minjastofnunar Íslands hófst haustið 2014. Lögð var áhersla á samráð og var hagsmunaaðilum boðið til opinna umræðufunda sem haldnir voru á átta stöðum á landinu. Sendur var tölvupóstur til hagsmunaaðila, en fundirnir voru einnig auglýstir í héraðsblöðum, á heimasíðu Minjastofnunar Íslands og Facebook. Tæplega 150 manns mættu á þessa fundi. Send var út skoðanakönnun sem yfir 200 svör bárust við og fengust þar gagnlegar upplýsingar sem nýttar voru við stefnumótunina. Haldnir voru sérstakir fundir með samtökum og aðilum sem hafa mikilla hagsmuna að gæta, svo sem Sambandi íslenskra sveitarfélaga, arkitektum, fornleifafræðingum, minjaráðum, söfnum, og ekki síst ráðgjafarnefndum. Reyndust ábendingar samráðsaðila ómetanlegar við mótun metnaðarfullrar en jafnframt raunsærrar stefnu um starfsemi Minjastofnunar Íslands við verndun og nýtingu fornleifa og byggingararfs. Stefnan nær til stjórnsýslu í málefnum fornleifa, menningar- og búsetulandslags, minningarmarka, húsa og annarra mannvirkja sem njóta verndar samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar, laga um verndarsvæði í byggð og laga um skil menningarverðmæta til annarra landa. Stefnan gildir fyrir tímabilið frá 2018 til 2020 en þær áherslur og markmið sem þar eru nefnd eru enn í fullu gildi í dag. Í stefnunni var lögð áhersla á opna og gagnsæja stjórnsýslu, fagmennsku, aukna vitund almennings, þekkingaröflun með skráningu og rannsóknum og samvinnu þeirra sem að málaflokknum koma. Hvatt er til sjálfbærrar nýtingar minja til hagsældar fyrir samfélögin þar sem minjarnar eru. Mikilvægt er að tekið sé tillit til jarðfastra menningarminja við alla áætlanagerð enda um óendurnýjanlega auðlind að ræða fyrir íslenskt samfélag og einstaka arfleifð fyrir mannkyn allt. Minjastofnun Íslands þakkar innilega öllum þeim sem komu að gerð stefnunnar.