Fara í efni

Friðlýstar fornleifar

Hluti fornleifa á Íslandi hefur verið sérstaklega friðlýstur þar sem minjavarslan hefur álitið að sérstaka áherslu skuli leggja á varðveislu þeirra til framtíðar. Er upplýsingar um þessar fornleifar og staðsetningu þeirra að finna í svokallaðri friðlýsingaskrá sem gefin var út árið 1990. Flestar þessara fornleifa voru friðlýstar áður en almenn friðun minja var fyrst tryggð með lagasetningu 1989. Unnið er að endurskoðun friðlýstra minja en viðmið um hvað beri sérstaklega að friðlýsa hafa breyst. Þannig mun áhersla nú verða á að friðlýsa stærri minjaheildir, svo sem búskaparleifar í heild með bæjarhúsum, útihúsum og garðhleðslum. Auk þess verður leitast við að friðlýsa bestu dæmi um hina ýmsu minjaflokka.

Minjastofnun Íslands hefur heimild til að leggja til friðlýsingu fornleifa, sem og skipa og báta, svo og húsa og mannvirkja eða hluta þeirra, sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Friðlýsing getur náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar, húss eða mannvirkis. Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi.

Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun menningarminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, en hafa þó ekki verið friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt. Meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu.

Friðlýsingaskrá frá 1990

Minjar og minjasvæði sem hafa verið friðlýst eftir árið 1990

  1. Flugvélarflak af gerðinni Northrop N-3PB Torpedo Bomber á botni Skerjafjarðar, sjá friðlýsingarskjal.
  2. Flak franska rannsóknarskipsins Pourquoi Pas? sem fórst við skerið Hnokka út af Álftanesi á Mýrum, sjá friðlýsingarskjal.
  3. Flak póstskipsins Phönix sem fórst í óveðri í upphafi árs 1881 við Syðra Skógarnes í Eyja- og Miklaholtshreppi, sjá friðlýsingarskjal.
  4. Fornleifar og hús á Hvanneyrartorfunni svokölluðu í Borgarfirði. Minjasvæðið er það fyrsta sem friðað er á þennan hátt á Íslandi, þ.e. samþætt friðlýsing fornleifa og húsa á stóru svæði. Nánar er fjallað um friðlýsinguna hér.
  5. Víkurgarður, gamli kirkjugarðurinn við Aðalstræti. Friðlýsingin nær yfir kirkju og kirkjugarð sem og aðrar minjar á reitnum innan lóðamarka Víkurgarðs. Sjá friðlýsingarskjal. 
  6. Menningarlandslag Þjórsárdals. Friðlýsingin nær yfir minjar 22 fornbýla í dalnum, sem áður voru friðlýst, umhverfi þeirra og aðrar þær minjar sem nú eru aldursfriðaðar samkvæmt minjalögum og umhverfi þeirra. Sjá friðlýsingarskjal.

Friðlýsing

Ráðherra ákveður friðlýsingu að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.

Minjastofnun getur borist ábending um að friðlýsa varðveisluverðar fornleifar eftir ýmsum leiðum, frá landeiganda eða öðrum þeim sem telja að varðveita eigi fornleifarnar eða Minjastofnun Íslands hefur frumkvæði að því að þær skuli friðlýstar. Berist stofnuninni rökstudd ábending eða ósk um friðlýsingu lætur hún fara fram mat þar sem varðveislugildi fornleifanna er metið með hliðsjón af sögu þeirra, umhverfisgildi, upprunaleika og ástands áður en ákvörðun er tekin um hvort leggja skuli til við ráðherra að fornleifarnar verði friðlýstar. Fornminjanefnd skal fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu fornleifa. Einnig er leitað álits landeiganda, viðkomandi sveitarfélags og annarra sem hagsmuna eiga að gæta.

Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður telst hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra.

Þegar fornleifum hefur verið friðlýst er friðlýsingunni þinglýst hjá viðkomandi sýslumanni og landeiganda, hlutaðeigandi lögreglustjóra og bæjar- og sveitastjórn tilkynnt um ákvörðunina.

Rannsóknir á friðlýstum fornleifum

Rannsóknir á friðlýstum fornleifum, þjóðminjum, sem hafa röskun minjastaðar í för með sér eru aðeins heimilar í undantekningartilvikum. Rannsóknaraðilar hlíta sérstökum skilmálum sem Minjastofnun Íslands setur.

Eftirlit og viðhald friðlýstra fornleifa

Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

Staðsetning og upplýsingar um friðlýstar fornleifar eru færðar í landfræðilegan gagnagrunn Minjastofnunar Íslands og birtar í vefsjá stofnunarinnar sem nálgast má hér. Ekki er um tæmandi lista að ræða enn sem komið er þar sem verið er að vinna að uppmælingu og staðsetningu allra friðlýstra fornleifa á Íslandi.

Minjastofnun Íslands hefur eftirlit með að friðlýstar menningarminjar séu færðar inn á skipulagskort.

Ef landareign sem á eru friðlýstar fornleifar skiptir um eigendur, á þinglýsingarstjóri að tilkynna það til Minjastofnunar Íslands.

Framkvæmdir við friðlýstar fornleifar

Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar og á fornleifunum sjálfum eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.

Minjastofnun Íslands sér til þess að friðlýstar fornleifar eða minjastaðir séu auðkennd með sérstökum merkjum. Upplýsingaskilti eða aðrar merkingar við friðlýstar fornleifar skulu vera í samræmi við reglur sem stofnunin setur og skal staðsetning þeirra vera háð samþykki stofnunarinnar. Minjastofnun Íslands er heimilt að fjarlægja skilti eða aðrar merkingar sé gerð þeirra og staðsetning ekki í samræmi við reglur sem stofnunin setur og kynnir.