Fara í efni
Til baka í lista

Hvanneyri - gamla bæjartorfan, Borgarbyggð

Hvanneyri
Friðlýst hús

Byggingarár: 1900

Friðlýsing:

Með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar ákvað forsætisráðherra 11. júlí 2015 að tillögu Minjastofnunar Íslands að friðlýsa gömlu bæjartorfuna á Hvanneyri í heild sinni innan afmarkaðs svæðis, þar með talið neðangreind hús, ásýnd staðarins, mannvistarleifar, garðar, ferjustaður við Hvítá og fyrri tíðar aðkomuleiðir heim að staðnum. Ennfremur tekur friðlýsingin til friðaðra minningarmarka í kirkjugarði, jarðræktarminja, varnar- og áveitugarða (garðlaga) og skurða sem tengdust engjarækt á bökkum Hvítár.

Friðlýstu húsin eru:

Hvanneyrarkirkja var byggð árið 1905 eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts. Hún var friðuð vegna aldurs árið 1990 skv. þjóðminjalögum nr. 88/1989. Sjá nánar.

Skólahúsiðvar byggt 1910. Það þykir vel útfært verk Rögnvaldar Ólafssonar. 

Skólastjórahúsið, sem byggt var 1920, er verk Guðjóns Samúelssonar.

Skemmanvar byggð árið 1896 og er elsta hús staðarins.

Leikfimihúsiðer teiknað af Einari Erlendssyni húsameistara árið 1911 og byggt sama ár. Húsið er enn í notkun og eitt af þrem elstu leikfimishúsum landsins.

Hjartarfjóssem steinhlaðið var á árunum 1900 til 1901 og er með fyrstu steinhlöðnu útihúsum á landinu. Síðar var það hækkað með steinsteypu.

Halldórsfjós og hlaðabyggð á árunum 1928 til 1929 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Það var byggt fyrir 80 gripi og þótti stórt og vandað á sínum tíma og markaði breytingar í búskaparháttum landsmanna. Á fjósloftinu var íbúð og þar var einnig efnarannsóknastofa skólans um 40 ára skeið.

Vélahús(Kollubar) var upphaflega hestarétt, en síðan sett þak á veggina og notað sem vélageymsla.

Rökstuðningur friðlýsingar:

Gamla bæjartorfan á Hvanneyri er merkilegt búsetulandslag með mikið menningarsögulegt gildi. Sem slík býr hún yfir sérstökum umhverfisgæðum sem óvíða eru til staðar í dreifbýli hér á landi, sem m.a. felast í samspili búsetuminja og merkra bygginga við ákveðnar landslagsheildir. Þessi gæði eru bundin staðsetningu húsanna í umhverfi sínu, innbyrðis afstöðu þeirra og þeim rýmum sem þau mynda á milli sín að ógleymdri byggingarlist húsanna. 

Skipulag bygginga innan bæjartorfunnar, ásýnd þeirra í landslaginu, samræmi þeirra og heildarsvipur ásamt sterkri rýmismyndun skapar þeim sérstöðu í byggingarlist 20. aldar. Gömlu bændaskólahúsin eru teiknuð af fyrstu menntuðu húsameisturum þjóðarinnar. Hvanneyrarkirkju (reist 1905) og skólahús bændaskólans (reist 1910) teiknaði Rögnvaldur Ólafsson. Leikfimihúsið (reist 1911) er verk Einars Erlendssonar, það er eitt af þremur elstu íþróttahúsum landsins sem enn eru í notkun. Skólastjórahúsið (reist 1920) og Halldórsfjós (reist 1928) teiknaði Guðjón Samúelsson. Skemman var byggð 1896 og er elsta bygging á staðnum. Nánari rökstuðning um varðveislugildi húsanna er að finna í byggða- og húsakönnun sem unnin var 2012.  

Auk húsanna á Hvanneyrartorfunni er að finna margvíslegar búsetu- og jarðræktarminjar innan þess svæðis sem friðlýsingin nær til, eins og lýst er í bréfi rektors Landbúnaðarháskóla Íslands til Minjastofnunar frá 5. júní 2014 og drögum að skýrslu Minjastofnunar Íslands yfir fornleifar og minningarmörk frá 2014. Minjar þessar eru hluti af búnaðarkennslu á Hvanneyri og tengjast þeirri þróun búnaðarverkþátta sem Landbúnaðarsafn Íslands á að segja. Aðstæður í umhverfinu, svo sem nálægð við vatnsból, víðsýni af bæjarhólnum, grösug engjalönd og þurrar fitjar á bökkum Hvítár, voru forsendur þess að búnaðarskóla Suðuramtsins var valinn staður á Hvanneyri fyrir 125 árum síðan. Reistir voru flóðgarðar og komið á áveitukerfum enda voru engjalönd undirstaða heyskapar á Hvanneyri fram undir miðja síðustu öld. Minjar um engjaræktina sjást enn og aðrar jarðræktarminjar, t.d. á formi beðnasléttna, eru víða í Kinninni vestan við Halldórsfjós og í hinu gamla túni Ásgarðsbýlisins. 

Við afmörkun friðlýsingarsvæðisins er þess gætt að ofangreindar jarðræktarminjar lendi innan hins friðlýsta svæðis, auk sjálfrar bæjartorfunnar. Jafnframt er litið til þess að varðveita mikilvægar landslagsheildir og sjónlínur sem tengjast m.a. fyrri tíðar aðkomuleiðum að bæjartorfunni. Innan marka svæðisins er m.a. lendingarstaður báta við Hvítá og heimreiðin að staðnum úr þeirri átt. Friðlýsingin tekur einungis til þeirra minja sem liggja innan marka friðlýsingarsvæðisins. Því á ekki við í þessu tilviki ákvæði 22 gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 um 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum friðlýstra fornleifa. Friðlýsingin hefur því engin áhrif á einkalóðir sem liggja að mörkum hins afmarkaða svæðis. 

Í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er hluti þess svæðis sem friðlýsingin tekur til afmarkað sem hverfisverndarsvæði. Hvanneyri og nágrannajarðirnar í Andakíl voru friðaðar samkvæmt náttúruverndarlögum árið 2011 sem hluti af alþjóðlegu Ramsar-votlendissvæði.

Heimild: Guðmundur Lúther Hafsteinsson og Guðlaug Erna Jónsdóttir (2012). Hvanneyrartorfan. Byggða- og húsakönnun 2012.