Fara í efni
Til baka í lista

Aðalstræti 14, Gudmanns Minde - Gamli spítali

Friðlýst hús

Byggingarár: 1835

Athugasemd: Sjúkrahús 1874–1899.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Gudmanns minde er tvílyft timburhús með háu risþaki, 11,43 m að lengd og 6,95 m á breidd, og stendur á steinhlöðnum og steyptum sökkli. Við norðurgafl hússins er tvílyft timburhús. Veggir Gudmanns minde eru klæddir slagþili en suðurgafl listaþili. Á húsinu eru 15 sex rúðu póstagluggar, sex á framhlið, fjórir á suðurgafli og fimm á bakhlið. Gluggar á jarðhæð eru ívið stærri en gluggar annarrar hæðar. Á gaflhyrnu eru þrír fjögurra rúðu gluggar og á bakhlið eru tveir eins ramma gluggar með tveimur rúðum hvor. Útidyr eru á framhlið sunnarlega og yfir þeim bjór. Bakdyr eru á miðri bakhlið hússins. Þakið er klætt bárujárni og á mæni, uppi yfir útidyrum, er skorsteinn.

Á jarðhæð er forstofa og stigi inn af útidyrum. Tvö herbergi eru í suðurenda hússins og önnur tvö í norðurenda. Bakdyr, forstofa og geymsla eru í norðvesturenda hússins. Hlaðið eldstæði er í miðju húsi á báðum hæðum. Á annarri hæð er framloft og tvö herbergi í hvorum enda og snyrting í norðvesturhorni.



[1]Hjörleifur Stefánsson. Akureyri. Fjaran og innbærinn, 74-76. Torfusamtökin 1986; Minjasafnið á Akureyri. Hanna Rósa Sveinsdóttir. Viðtal 1999.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Gudmanns minde.