Fara í efni
Til baka í lista

Aðalstræti 16, Ísafirði, Ísafirði

Friðlýst hús

Byggingarár: 1876

Byggingarár: 1876 og 1885.

Athugasemd: Norðurhluti reistur 1876 en suðurhluti reistur 1885.

Breytingar: Suðurhluti var upphaflega klæddur strikaðri plægðri skarsúð og var færður nær götu 1929.[1]

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðað af menntamálaráðherra 19. nóvember 1993 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs, upprunalegrar verslunarinnréttingar og bitalofts á fyrstu og annarri hæð í norðurenda og lofta- og veggjaklæðninga í tveimur herbergjum á jarðhæð í suðurenda hússins.[2]

 

Aðalstræti 16 er tvö sambyggð timburhús.

Að norðanverðu er tvílyft hús með risþaki, um 8,8 m að lengd og8 m á breidd, og stendur á steinsteyptum sökkli. Veggir eru klæddir listaþili. Á vesturgafli eru tveir gólfsíðir einnar rúðu gluggar og útidyr á milli þeirra með spjaldsettri og glerjaðri hurð. Ofar á gaflinum eru tveir krosspóstagluggar en á gaflhlaði einnar rúðu gluggi og skásettur gluggi efst með fjórum rúðum. Á norðurhlið eru sex krosspóstagluggar. Yfir gluggum er skrautfjöl með vatnsbretti yfir studdu kröppum og skoraðir faldar til hliða. Á gaflhlaði austan megin eru tveir gluggar með sex rúðu ramma, litlar dyr með vængjahlerum og skásettur fjögurra rúðu gluggi efst með gálga yfir. Þrír þakgluggar eru  norðan megin á þakinu. Austan við húsið og samtengt austurgafli er stórt einlyft steinsteypt hús með skúrþaki sem nær norður og suður fyrir bæði timburhúsin.

 Í verslun á jarðhæð í vesturenda er upprunaleg verslunarinnrétting; hillur frá gólfi og upp undir loftbita og skreyttar hálfsúlum. Á báðum hæðum hússins eru klæddir bitar í loftum.

 

Að sunnanverðu er einlyft hús með risþak, um 11 m að lengd og 7,6 m á breidd, og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökkli. Veggir eru klæddir listaþili en austurhlið er klædd upprunalegri skarsúð. Á framhlið eru tveir stórir fimm rúðu gluggar með tveimur póstum hvor og á milli þeirra útidyr með spjald- og glersettri hurð fyrir. Á gaflhlaði sunnan megin eru stórar vörudyr með glerjaðri hurð fyrir og gálga uppi yfir en tveir krosspóstagluggar á gaflinum og einn á austurhlið. Yfir gluggum er skrautfjöl með vatnsbretti yfir studdu kröppum og skoraðir faldar til hliða. Þrír þakgluggar eru hvorum megin á þaki. Við bakhlið hússins er einnar hæðar tengibygging með dyrum á suðurhlið og skúrþaki milli hússins að norðanverðu og steinsteypta hússins austan þeirra.

Í tveimur stofum í suðurenda hússins eru veggir klæddir brjóstþili; reitaþiljum að neðan en plötum að ofan, og loft reitaklædd.



[1]Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símónía Bjarnadóttir. Húsakönnun á Ísafirði 1992-1993, 37. Handrit 1993.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Aðalstrætis 16 á Ísafirði.