Fara í efni
Til baka í lista

Akraneskirkja, Akranes

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1896

Byggingarár: 1895–1896.[1]

Hönnuður: Guðmundur Jakobsson forsmiður.

Breytingar: Í upphafi voru steypujárnsgluggar í kirkjunni en á árunum 1902–1908 voru þeir fjarlægðir og trégluggar settir í staðinn.[2]

Nýir bekkir voru smíðaðir í kirkjuna 1933 og nýir smíðaðir í þeirra stað; niðri árið 1962 og uppi 1966.

Kirkjan var lengd um 2,5 m til austurs árið 1965 og skrúðhús gert bak altari.[3]

Hönnuður: Jóhannes Ingibjartsson byggingafræðingur.

Gréta Björnsson skrautmálaði kirkjuna innan 1966.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Akraneskirkja er timburhús, átthyrningur að grunnfleti, 21,40 m að lengd og 9,00 m á breidd. Hornsneiðingar eru 4,50 m að lengd en framhlið og kórbak eru 3,30 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er burstsettur áttstrendur turn með oddbogaglugga á hverri hlið. Á honum er há áttstrend spíra. Undir turni er breiður ferstrendur stallur og á honum flatt þak girt handriði. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tvær gluggaraðir með fimm tvípósta krossgluggum undir oddboga, hver þeirra með 12 rúðum. Stærri 15 rúðu gluggi er á hverri hinna fjögurra sneiðinga og dyr undir glugganum á suðausturhlið. Á framhlið turns eru tveir samlægir gluggar yfir kirkjudyrum og einn stærri yfir þeim. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og gluggi undir oddboga yfir.

Í forkirkju eru stigar til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og setsvala fram með hliðum. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er upp yfir kirkjugólf um fjögur þrep. Þverbekkir eru í framkirkju hvorum megin gangs og á setsvölum. Framkirkjan er þrískipa, stoðir standa á kirkjugólfi og bera setsvalir og oddbogahvelfingu yfir miðhluta framkirkju. Á mörkum framkirkju og kórs eru fjórir oddbogar og undir þeim fjórar stoðir og veggstoð hvorum megin altaris og oddbogahvelfingar yfir. Skrúðhús er að kórbaki sem nemur lengingu kirkjunnar. Veggir eru klæddir sléttum plötum og hvelfingar múrhúðaðar. Kirkjan er skreytt trúarlegum táknmyndum, einkum hvelfingar.


[1]ÞÍ.BiskupsskjalasafnC. V, 92. Bréf 1900.Athugasemdir biskups við byggingarreikning Akraneskirkju 1895–96.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AA/12 og 13.Akraneskirkja 1896 og 1909.

[3]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Borgarfjarðarprófastsdæmi AA/15. Akraneskirkja 1934; Biskupsskjalasafn 1994 AA/ 12. Akranes 1969.

[4]Gunnlaugur Haraldsson. Akraneskirkja 1896-1996, 157-177. Útgefandi Akraneskirkja. Akranes 1996; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 13, Akraneskirkja, 16-36. Reykjavík 2009.