Fara í efni
Til baka í lista

Amtmannshúsið (Stapahúsið), Arnarstapa

Friðlýst hús

Byggingarár: 1774

Byggingarár: Á tímabilinu 17741787 á Arnarstapa.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Athugasemd: Flutt að Vogi á Mýrum 1849. Tekið niður árið 1983 til viðgerðar og reist aftur á Arnarstapa 1985–1986.[2]

Að hluta í vörslu Þjóðminjasafns Íslands 1986–1993.

Tekið á fornleifaskrá 10. nóvember 1986 en lagaheimild skortir sbr. II. og IV. kafla þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Amtmannshúsið er einlyft timburhús með risþaki og miðjukvisti við framhlið, 8,90 m að lengd og 6,69 m á breidd, og með anddyri og baðhús við norðurhlið. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli. Veggir eru klæddir listaþili og hæðarskilaband er á stöfnum. Á suðurhlið eru sex póstagluggar með sex rúðum hver, þrír á norðurhlið og tveir á hvorri gaflhyrnu. Efst á gaflhyrnum og kvisti er hálfhringgluggi. Útidyr með tvöföldum hurðum eru á miðri suðurhlið og smárúðóttur þvergluggi yfir og fram undan þeim trétröppur. Þakið er klætt rennisúð og frá því gengið með trérennum studdum skásettum stuttstoðum. Á mæni er borðaklæddur reykháfur. Bakdyr eru á vesturhlið anddyris auk tveggja rúðu glugga og sinn glugginn sömu gerðar er á hvorum gafli baðhúss. Veggir viðbygginga eru klæddir slagþili og þökin pappalögð. 

Inn af útidyrum er forstofa, stofur hvorum megin hennar sunnan megin í húsinu og stigi upp á loft. Eldhús er norðan megin inn af forstofu en kames inn af suðvesturstofu. Á loftinu er gangur, herbergi við hvorn gafl og kvistherbergi. Veggir suðausturstofu eru klæddir brjóstþili; reitaþiljum að neðan og veggfóðri að ofan og loftið klætt reitaþiljum. Aðrir veggir jarðhæðar eru klæddir spjaldaþili og yfir þeim loft á bitum. Veggir rishæðar eru ýmist klæddir spjaldaþili eða listuðum standþiljum, spjaldaloft er í kvistherbergi en hin herbergin eru ýmist klædd sléttfelldum þiljum, listuðum þiljum eða strikuðum panelborðum. Veggir og loft í stofum, gangi og kvistherbergi eru máluð svo og neðri hluti veggja í kamesi og loft þess. Veggir og loft í forstofu og baðhúsi eru klædd panelborðum.

Nærri húsinu er bílskúr og steinhlaðinn hjallur með torfþaki.


[1]Hjörleifur Stefánsson. Greinargerð um Amtmannssetrið á Arnarstapa. Febrúar 1985.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990, 78. Reykjavík 2000.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Amtmannshúsið á Arnarstapa; Þór Magnússon. Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1986, 181. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1986.