Fara í efni
Til baka í lista

Bæjarbíó, Strandgötu 6, Hafnarfirði

Bæjarbíó Hafnarfirði - salur
Friðlýst hús

Byggingarár: 1942

Hönnuðir: Sigmundur Halldórsson húsameistari og Skarphéðinn Jóhannsson húsgagnaarkitekt

Friðlýsing

Með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 friðlýsti forsætisráðherra að tillögu Minjastofnunar Íslands Bæjarbíó, Strandgötu 6 í Hafnarfirði 3. mars 2014.Friðlýsingin tekur til innréttinga í anddyri, forsal og bíósal.

Byggingarefni

Steinsteypuhús. 


Hafnarfjarðarbær reisti Strandgötu 6 sem ráðhús og kvikmyndahús.Bæjarbíó var innréttað á árunum 1942-43 af Sigmundi Halldórssyni húsameistara, höfundi Strandgötu 6, og Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt. Það var tekið í notkun 10. janúar 1945. Mjög var vandað til hönnunar bíósins á sínum tíma. Ekki aðeins er það eina kvikmyndahúsið frá miðri 20. öld sem varðveist hefur í upphaflegri mynd heldur er þar að finna innréttingu sem einn helsti frumherji í stétt íslenskra húsgagna- og innanhúsarkitekta átti þátt í að móta og útfæra. Höfundar ámálaðra veggmynda í forsal sem eru eins konar táknmyndir fyrir Hafnarfjörð (sjómaðurinn og fiskvinnslustúlkan) voru þeir Ásgeir Júlíusson og Atli Már. Hér við bætist stórt málverk eftir listmálarann Eirík Smith af Sólvangi en hagnaðurinn af rekstri Bæjarbíós var nýttur til byggingar þessa víðkunna elliheimilis.

Árið 1970 var reglubundnum kvikmyndasýningum hætt í húsinu en Leikfélag Hafnarfjarðar fékk þar aðstöðu. Kvikmyndasafn Íslands tók við bíóinu árið 1997. Þá var ráðist ífaglega endurgerð bíósalarinsog hófust kvikmyndasýningar þar að nýju í desember 2001.Við endurgerðina voru upphaflegar teikningar Skarphéðins hafðar sem fyrirmynd jafnframt því sem kappkostað var að halda í veggmyndir og önnur sérkenni sem gefa bíóinu sögulegt gildi. Miklu var til kostað við endurgerð bíósins. Má nefna að kvikmyndasýningavélar eins og þær sem voru í bíóinu frá upphafi voru gerðar upp þannig að hægt yrði að sýna kvikmyndir eins og gert var þegar bíóið hóf starfsemi sína 1945. Í Bæjarbíói er nú varðveitt upprunalegt verklag við kvikmyndasýningar sem alls staðar á landinu hefur verið aflagt.

 

Heimildir:

Minnisblað Péturs Ármannssonar arkitekts hjá Minjastofnun Íslands til húsafriðunarnefndar, dags. 30. mars 2013.

Þórarinn Guðnason (2007, 27. mars). Kvikmyndasafn Íslands. Saga kvikmyndahúsanna í Hafnarfirði – stutt ágrip. Sótt 12. mars 2014 af http://www.kvikmyndasafn.is/vefur/?portfolio=baejarbio-bio-kvikmyndasafns-islands.


Sjá á loftmynd.