Fara í efni
Til baka í lista

Bifröst - elsti hluti skólabygginga Samvinnuskólans

Img_7322lettmynd1
Friðlýst hús

Byggingarár: 1950

Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands 21. maí 2020, skv.

3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að friðlýsa elstu hluta skólabygginga Samvinnuskólans á Bifröst í Borgarfirði.  Friðlýsingin tekur til ytra borðs samkomuhúss frá 1950, veggfastra innréttinga í samkomusal og setustofu samkomuhúss, ytra borðs tengigangs milli samkomuhúss og gistiálmu og veggmyndar á tengigangi eftir Hörð Ágústsson listmálara. 

Byggingarefni

Timbur

Höfundur

Gísli Halldórsson, Kjartan Sigurðsson og Sigvaldi Thordarson

Elsta byggingin á Bifröst, samkomu- og veitingastaður, var reist eftir uppdráttum arkitektanna Gísla Halldórssonar, Kjartans Sigurðssonar og Sigvalda Thordarson. Húsið var upphaflega teiknað af arkitektunum þremur árið 1945 fyrir Hótel Hreðavatn h.f. Árið 1948 réðst Sigvaldi til starfa hjá Teiknistofu S.Í.S. Ári síðar festi S.Í.S. kaup á samkomuhúsi Hótel Hreðavatns h.f. sem þá var risið en ekki fullgert. Fékk Sigvaldi það verkefni að ljúka við frágang og innréttingar hússins sem nýta átti sem félagsheimili og hótel Samvinnumanna. Árið 1953 var ákveðið að flytja starfsemi Samvinnuskólans að Bifröst og tók skólinn til starfa í nýjum húsakynnum árið 1955. Samkomuálman að Bifröst er einlyft timburhús með risi og kjallara undir hluta bakálmu. Húsið er mjög vel varðveitt í upprunalegri mynd jafnt utan sem innan en þarfnast viðhalds. Asbestklæðning er á hluta útveggja og krossviður að hluta sem þörf er á að endurnýja. Samkomuhúsið á Bifröst er að mati Minjastofnunar mikilvægt og vel varðveitt dæmi um höfundarverk Sigvalda Thordarson og samstarfsmanna hans, Gísla og Kjartans, frá upphafsárum þeirra starfsferils. Ekki síst á það við innréttingar og búnað í samkomusal og setustofu, sem varðveist hefur í nær upprunalegri mynd.

Árið 1955 var reist viðbygging við samkomuhúsið, þrílyft álma með gistiherbergjum ásamt tengigangi eftir uppdráttum Skúla H. Norðdahl arkitekts hjá Teiknistofu S.Í.S. Heimavistarálman tekur mið af form- og útlitseinkennum samkomuhússins. Saman mynda húsin tvö fallega og samræmda heild. Bæði húsin hafa einkennt ásýnd Bifrastar frá upphafi og hafa í hugum fólks öðlast sess sem hluti staðarmynd Norðurárdals og táknmynd þeirra skólastofnana sem þar hafa starfað. Í tengigangi milli samkomuhússins og gistiálmu er veggmynd í anda strangflatarlistar, gerð af Herði Ágústssyni listmálara árið 1957. Er hún sú eina sem varðveist hefur af þeim fimm veggmyndum sem Hörður vann í opinberum byggingum á árunum 1953­-1959.