Breiðabólstaðarkirkja, Húnafjörður, Húnaþing vestra

Byggingarár: 1893
Hönnuður: Vilhjálmur Halldórsson forsmiður.
Saga
Breiðabólstaðarkirkja er nefnd í máldaga Auðunar biskups rauða frá 1318 en fyrsti prestur sem getið er um á staðnum er Illugi Bjarnarson sem kom þangað um 1106. Núverandi kirkja var reist í stað annarrar timburkirkju sem hafði verið reist á staðnum árið 1844 en var samkvæmt vísitasíu frá árinu 1884 "mjó og veikbyggð" og farin að fúna.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Breiðabólstaðarkirkja er timburhús, 7,59 m að lengd og 6,35 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,51 m að lengd og 3,44 m á breidd, og forkirkju við vesturstafn, 2,52 m að lengd og 3,22 m á breidd. Risþak er á kirkju en krossreist þök á framkirkju og kór. Upp af framstafni er hár ferstrendur turn með krossreistu þaki. Hann stendur á bjúgstalli. Hringgluggi er á framstafni turns og randskornar vindskeiðar undir þakbrúnum. Kirkjan er klædd steinajárni, þök bárujárni, turn sléttu járni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með sex rúðum og einn á hvorri hlið kórs. Í þeim er miðpóstur og þverrimar. Ofarlega á vesturstafni eru tveir gluggar og í þeim miðpóstur og tvær rúður. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi með skásettum rimum og bjór yfir.
Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og sveigður stigi í norðvesturhorni. Undir frambrún þess eru tvær stoðir. Veggir forkirkju eru klæddir standþili, vesturgafl framkirkju, söngloft og kór klædd strikuðum panelborðum en annars eru veggir framkirkju plötuklæddir. Efst á veggjum í innri hluta framkirkju og í kór er strikasylla. Strikaðar flatsúlur eru í kórdyrum og bogi yfir. Á sönglofti eru portveggir hvorum megin en panelklædd hvelfing yfir. Ívið lægri hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og önnur minni yfir kór.